144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:14]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem beint inn í glóðheita umræðuna um skattlagningu á menningu, þ.e. á bækur og tónlist, sem var einmitt það sem ég ætlaði mér að ræða hér, hið andlega fóður. Við erum búin að tala mikið í dag um skatt á matvæli og lífsnauðsynjar en menning er líka lífsnauðsyn. Það er enginn vafi á því og ég held að allar kannanir, allir sérfróðir aðilar sem hafa fjallað um læsi barna og læsi almennt séu sammála um að aðgengi að lesefni er grundvallaratriði fyrir uppbyggingu og eflingu læsis í samfélögum.

Þegar ég settist niður til þess að setja niður einhverja punkta fyrir þessa umræðu fór ekki hjá því að mér varð hugsað til Hallgríms sáluga Péturssonar, sálmaskáldsins góða sem orti í heilræðavísum sínum:

Að lesa og skrifa list er góð,

læri það sem flestir.

Þeir eru haldnir heims hjá þjóð

höfðingjarnir mestir.

Þetta er ort á þeirri tíð þegar bókfell var af skornum skammti, ritföng af skornum skammti og það var í raun og veru munaður að geta lært að draga til stafs og lesa. En þetta staðfestir líka það viðhorf sem hefur verið ríkjandi hjá íslenskri þjóð í gegnum aldirnar, að við værum bókaþjóð, menningarþjóð, þjóð sem berst með mátt orðsins að vopni þegar aðrar þjóðir heyja stríð. Þjóð sem geymir ódauðlegan og ómetanlegan bókmenntaarf í fornhandritum sínum, þjóð sem tignar mátt og sköpun hins talaða orðs, þjóðin á sögueyjunni sem við köllum landið okkar stundum.

Okkar mesta niðurlægingarskeið í sögunni var þegar fátæk alþýða lagði sér skinnhandritin til munns í sárum sulti hallærisáranna á myrkasta tímanum í sögu okkar, þegar við bókstaflega átum bækur. Það dæmi hefur verið haft til merkis um hversu djúpt þjóðin var sokkin. Núna á því herrans ári 2014 þykir ríkisstjórninni efni til þess að gera bækur að fóðri fyrir ríkissjóð, að hækka virðisaukaskatt á bókum úr 7% í 12.

Eins og komið hefur fram í umræðunni er það reynsla annarra landa sem sýnir að hækkun virðisaukaskatts á bókum dregur umtalsvert úr útgáfu og sölu bóka, og um það hafa verið rakin dæmi hér, þegar aftur á móti lækkun virðisaukaskatts skilar sér mjög fljótt í líflegri bókaútgáfu og aukinni sölu, og var t.d. tekið dæmi frá Svíþjóð. Það hefur líka komið fram í þessari umræðu að allar, velflestar ef ekki allar Evrópuþjóðirnar hafa lægri virðisaukaskatt en þann sem er til umræðu á bækur. Í nágrannalöndum okkar, eins og t.d. í Noregi, Færeyjum, Írlandi og á Bretlandseyjum, þykir sjálfsagt að hafa engan virðisaukaskatt á bókum. Í slíkum löndum vegsama menn menningu sína og sögu og arfleifð og sýna það í verki í gegnum skattkerfið meðal annars.

Ríkisstjórn Íslands finnst hins vegar ástæða, og það er svo sorglegt að þessum stjórnvöldum skuli finnast það, til að hlífa t.d. auðugum útgerðarfyrirtækjum, hlífa þeim við eðlilegu veiðileyfagjaldi, sem mundi þó skila mun meiri fjármunum í ríkissjóð en hækkaður virðisaukaskattur á bókum. Heildarvelta bókamarkaðarins mun vera einhvers staðar um 3 milljarðar kr. en svo maður taki samanburð er hreinn hagnaður eins einasta útgerðarfyrirtækis norður í landi 22 milljarðar á síðasta ári, sjö sinnum sú upphæð sem bókamarkaðurinn í heild sinni veltir.

Eins og við höfum rætt hafa viðurkenndar kannanir sýnt það að læsi í landinu fer hrakandi og lesskilningur ungmenna minnkar. Ráðamenn í mennta- og menningarmálum hafa lýst yfir áhyggjum af þeirri stöðu og mikilvægi þess að bregðast við. En hér, eins og oft áður, því miður, stangast algjörlega á orð og gjörðir, því að þeir hafa ekki fyrr sleppt orðinu en tekin er ákvörðun um að leggja það til við Alþingi Íslendinga í fjárlögum næsta árs að skattleggja bækur.

Þess vegna finnst mér að við þurfum aðeins að velta fyrir okkur: Hvert er í raun og veru verðmæti menningarfyrirbæris eins og bóka? Hvað er menning? Ef við lítum í orðabækur sjáum við til dæmis í Orðabók Menningarsjóðs að menning er skilgreind þar sem þroski mannlegra eiginleika mannsins, það sem greinir hann frá dýrum, nær yfir þjálfun hugans og andlegt líf.

Í Íslenskri orðsifjabók má sjá þá viðbót við það sem nú er rakið að menning sé þroski hugar og handa og það að manna einhvern, þróun, efling og siðmenning. Menning hefur líka verið skilgreind sem sameiginlegur arfur kynslóðanna og sú heild þekkingar, siðferðis, trúar og tákna sem er undirstaða mannlegs samfélags. Hugtakið menning hefur því tvíþætta merkingu. Annars vegar höfum við hugmyndina um siðmenningu og hins vegar hugmyndina um sameiginlegan arf. Þannig að menning er það sem gerir líf okkar þess virði að því sé lifað og hún er liður í almennum lífsgæðum og liður í því að vera maður innan um aðra menn á fallegan og gefandi hátt.

Ein forsenda þess að fólk njóti menningar er aðgengi að bókmenntum. Það aðgengi þarf auðvitað að vera sem auðveldast. Það blasir við að hækkun virðisaukaskatts úr 7% í 12 er ekki til þess fallin að auka aðgengi ungs fólks að bókum eða ýta undir lestur. Það er ekki menningarvinsamleg aðgerð. En það segir býsna mikið um afstöðu, ég vil nú ekki segja innræti, ég vil frekar nota orðið afstöðu, lífsafstöðu þeirra sem núna halda um stjórnartauma að þeir skuli geta réttlætt það fyrir sjálfum sér að leggja skatta á mat og bækur, 5% hækkun á rafmagn og heitu vatni sem leggst þungt á tekjulága og barnafjölskyldur. Að þeir skuli frekar vilja auka greiðsluþátttöku sjúklinga í S-merktum lyfjum en til dæmis að taka réttlátan skerf af stórgróða útgerðarinnar eða stóreignum hinna ríkustu. Að þeir skuli vilja rukka sjúklinga frekar en útgerðarmenn og lækka skatta af óhollustu en hækka skatta á hollustuna, bæði hina líkamlegu og þá andlegu.

Mér finnst þetta einhvern veginn segja svo nöturlega sögu um málefnaáherslur. Og í sama knérunn heggur hækkun á raforku til húshitunar sem mun íþyngja mjög landsbyggðinni, sérstaklega á köldustu svæðunum. Að ríkisstjórnin skuli hafa gleymt sóknaráætlunum landshlutanna og viti varla sjálf hvaða prósentutölu þau ætluðu að hafa á virðisaukaskattinum, eins og við sjáum á bls. 207 í fjárlagafrumvarpinu, hvorki í efra þrepinu né hinu neðra, það var á reiki, eða hvort sykurskatturinn væri inni eða úti finnst mér allt segja sína sorglegu sögu um óvandvirkni og ákveðið skeytingarleysi sem er áhyggjuefni.

Svo að við setjum þessa umræðu aðeins í samhengi við aðrar ákvarðanir sem hafa verið teknar er til dæmis á döfinni kvótasetning á makríl. Makríll er ný fisktegund á Íslandsmiðum sem er eiginlega bara ný auðlind. — Herra forseti. Það væri gott ef fjármálaráðherra lækkaði aðeins róminn hérna í bakherbergi.

(Forseti (SJS): Ég vil biðja um ró í hliðarsölum. Takk. Gefið þingmanninum gott hljóð.)

Takk fyrir. Mér þætti vænt um ef fjármálaráðherra mundi hlusta á þessa ræðu.

Nú er verið að tala um það að kvótasetja þessa nýju tegund og úthluta henni til útgerðarinnar í landinu í stað þess að bjóða hana upp á opnum markaði með frjálsum tilboðum til dæmis í leigðar aflaheimildir. En ef aflaheimildir í þessari tegund og segjum rækju og makríl yrðu leigðar út á opnum markaði kæmu milljarðar í ríkiskassann og tekjurnar af slíku uppboði mundu auðvitað létta mjög undir með fjárvana ríkissjóði núna á þessum síðustu og verstu tímum. Þetta er eitt lítið dæmi í samhenginu, þó að fólki finnist kannski menning og fiskur ekki eiga margt sameiginlegt er ágætt að hugsa um þetta samt, finnst mér, hvaða leiðir við veljum.

Nei, ríkisstjórnin metur það þyngra á vogarskálum að hlífa öflugum stórgróðafyrirtækjum og rótgrónum útgerðarfyrirtækjum við því að axla samfélagslega ábyrgð og þær byrðar kýs hún að leggja frekar á almenning, á sjúklingana, á lífsnauðsynjarnar og menninguna. Og þeir veiku borga veiðigjaldið.

Herra forseti. Verkin sýna merkin. Í menningarlegu tilliti er orðið nokkuð ljóst að ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks finnst í rauninni ekkert að því að gera eins og þjóðin neyddist til að gera hér á sínu niðurlægingarskeiði sögunnar, þ.e. að éta bækur.