144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hennar góðu ræðu. Þá umræðu sem hefur verið uppi og kom líka fram í ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um á virðisaukaskatt á bækur og þýðingu þess má kannski í raun og veru orða sem áhættuna sem við erum að taka með því að hækka verð á bókum í samfélagi þar sem menning skipar sannarlega mikinn og verðugan sess en ekki síður gagnvart tungumáli sem á undir högg að rækja og þar sem læsi er líka sérstakt viðfangsefni dagsins akkúrat núna. Manni finnst því svo sem ekki erfitt að rökstyðja það að styðja bæri þennan þátt íslenskrar tungu sem er bókaútgáfa á íslensku og ekki síður þýðingar á bókmenntaverkum, hvort sem er fyrir börn eða fullorðna af erlendum tungum yfir á íslensku. Þannig að það er kannski ekki snúnasti þátturinn í þessu ef menn gætu opnað eyrum gagnvart því að hverfa frá áformum um hækkun virðisaukaskatts á bækur, jafnvel fella þann skatt algjörlega niður.

Spurningin sem mig langar að spyrja hv. þingmann er hvort sú lækkun, ef við gerum ráð fyrir því að við styðjum það skref hér í meðförum þingsins, ætti bara við um bækur eða fleiri þætti menningarinnar eins og til að mynda tónlist. Því það er jú líka mikilvægur þáttur í menningunni og öflugu menningarlífi og menningarstarfi í þroskuðu samfélagi sem býr yfir sjálfsvirðingu að tónlistin sé öflug og búi við opinberan stuðning. Ég vildi spyrja hv. þingmann um þetta.