144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:28]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að farsælast væri ef menningarfyrirbæri eins og bæði bókaútgáfa og tónlist væru undanþegin virðisaukaskatti. Eins og ég sagði áðan lít ég á menningu sem lífsnauðsyn og lið í því að vera manneskja og fegra mannlífið og samskipti milli fólks. Menning hefur alltaf gefandi og hvetjandi áhrif. Hún er liður í því að kenna okkur að hugsa og hjálpa okkur að hugsa og skilja samhengi hluta, bæði röklega og óröklega.

Þess vegna, eins og fram hefur komið, skila auknar álögur á menningu eins og á bókaútgáfu sér í skertri virkni. Það held ég að sé ekki áhættunnar virði fyrir jafn lítið samfélag og okkar sem leggur virkilega upp úr því að varðveita sinn menningararf og að hann sé fágæti og gersemi eins og íslensk tunga. Eins og fram hefur komið erum við aðeins 300 þúsund manneskjur sem tölum þetta tungumál en þetta er upprunalegt tungumál. Þetta er tungumál sem er fágæti á heimsvísu, gersemi. Það er einhverju til kostandi fyrir samfélag að varðveita slíkt menningarverðmæti. Við sjáum líka að það eru ekki einu sinni það miklar tekjur sem koma inn af þessum virðisaukaskatti að þær réttlæti að skella honum á og sjá svo bara hvað gerist. Þá er hætt við því að skaði sé orðinn sem erfitt verður að bæta.