144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:32]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir það, þetta er mjög sérkennileg staða sem við erum í hér og undarlegt að hafa ekki fulltrúa annars stjórnarflokksins til samræðna um þetta sem og annað sem lýtur að fjárlagafrumvarpinu. Það er eins og þingmaðurinn bendir á, það er ekki nokkur leið að átta sig á því hverjir fyrirvararnir eru hjá Framsóknarflokknum við þetta fjárlagafrumvarp. Eiga þeir einungis við um skattinn á lífsnauðsynjarnar eða eiga þeir einmitt við um menningarskattinn sem við getum kallað svo? Við vitum að innan Framsóknarflokksins eru þingmenn sem eru mjög menningarlega sinnaðir, vel menntaðir í menningarfræðum, áhugafólk um menningu, fólk sem hefur komið og gert íslenska menningu, ekki síst þjóðmenningu, að umtalsefni hér í ræðustóli. Hver er afstaða þess fólks til þess sem hér er að gerast? Okkur er haldið í myrkrinu varðandi það.

Auðvitað á menning að hafa samfélagslegan stuðning. Það væri óskandi að við gætum tekið hér oftar og ítarlegar umræður um íslenska menningu, þýðingu hennar og hlutverk og okkar eigið hlutverk og skyldur gagnvart þeim menningararfi sem okkur hefur borist í hendur og er okkar að skila síðan áfram til komandi kynslóða, ekki síst með ritun bóka og brúki hins talaða, skapandi máls.