144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hefur margt komið fram í þessari umræðu og kannski ekki komið á óvart hvernig línur liggja í þeim hækkunum sem eru hér boðaðar á virðisaukaskatti á mat, bækur, hita og rafmagn og lækkanir á vörugjöldum. Ég skoðaði síðasta fjárlagafrumvarp með landsbyggðargleraugunum í bland við annað. Þau fjárlög voru ekki mjög hliðholl landsbyggðinni og láglaunafólki. Ég held að alveg það sama megi segja um þessi fjárlög og þær tekjuaflanir sem eru hér á ferðinni, þær koma sérstaklega illa út fyrir landsbyggðarfólk og láglaunafólk. Það var ekki nein tilviljun að síðasta fjárlagafrumvarp væri á þá lund sem það var varðandi álögur á landsbyggðina. Svo virðist sem áfram sé róið á sömu mið.

Fyrst varðandi hækkanir á virðisaukaskatti á hita og rafmagn. Það er vissulega mikið áhyggjuefni hvernig þau mál eiga eftir að þróast. Enn liggur ekkert fyrir um hverjar mótvægisaðgerðirnar verða hjá ríkisstjórninni varðandi það að koma með einhverjum hætti að jöfnun á dreifingu á rafmagni. Frumvarp þess efnis liggur fyrir en náðist ekki í gegn á síðasta þingi. Það er ekki hægt að sjá í núverandi fjárlagafrumvarpi að neitt liggi fyrir um hvernig hár húshitunarkostnaður og jöfnunargjald á dreifingu á rafmagni á eftir að verða. Þessi hækkun á hita og rafmagni stendur bara eins og hún stendur og kemur mjög illa við mörg svæði á landsbyggðinni sem berjast nú þegar við háan húshitunarkostnað að fá þetta í ofanálag.

Það hefur komið fram að orkukostnaður í dreifbýli á hvert heimili er á ári að meðaltali 329 þús. kr. og að meðaltali á heimili á höfuðborgarsvæðinu 185 þús. kr. Ég þekki mætavel miklu hærri tölur en þetta meðaltal, orkukostnaður úti á landi getur verið allt upp í 400 þús. kr. á heimili á ári. Ég þekki líka mætavel að á höfuðborgarsvæðinu getur þessi tala verið miklu lægri en 185 þús. kr. á heimili í orkukostnað á ársgrundvelli.

Þarna eru þættir sem vega þungt í útgjöldum heimilanna og þyngja enn álögur á þau svæði þar sem margur annar kostnaður er fyrir, mun hærri en hann er hér á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst alveg kominn tími til að hæstv. fjármálaráðherra láti greina fjárlagafrumvarpið með landsbyggðargleraugum og vinni út frá því. Það er ekki hægt að bjóða fólki á þessum svæðum á landsbyggðinni sem búa við aðstæður eins og ég hef nefnt upp á það að áfram sé haldið að þyngja álögur á rekstur heimilis á þeim stöðum og ekkert komi í staðinn. Í gegnum tíðina hafa fyrirheit stjórnmálamanna úr öllum stjórnmálaflokkum verið fögur en við vitum ósköp vel hverjir stýrðu landinu fram að hruni og hverjir bera ábyrgð á því að ekki er lengra komið í jöfnun orkukostnaðar í landinu en raun ber vitni.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn héldu um valdataumana í 18 ár og því miður var ekki mikið afgangs til að nýta í þessa þætti eftir að hrunið varð. Samt var reynt að bæta í þessa þætti þótt ekki hafi verið úr miklum fjármunum að spila. Nú verður ríkisstjórnin að horfa á þetta í samhengi og beita sér fyrir jöfnun orkukostnaðar í landinu en bjóða fólki ekki upp á það að enn einu sinni bætist við álögur á þennan hluta kostnaðar við rekstur heimila á köldum svæðum.

Ég vil líka koma inn á hækkun á virðisaukaskatti á mat. Ég er landsbyggðarmanneskja, hef búið úti á landi í vel yfir 50 ár og þekki vel á eigin skinni hátt matvöruverð á landsbyggðinni. Matarkarfan á þeim svæðum sem hafa ekki greiðan aðgang að lágvöruverslun eins og Bónus eða samsvarandi verslun er miklu hærri en er á höfuðborgarsvæðinu. Þetta vegur því enn þyngra á þeim svæðum þar sem menn hafa ekki aðgang að lágvöruverslun dagsdaglega þó að menn geti sem betur fer kannski gert hagstæðari innkaup með reglulegu millibili, sumir hverjir. Þetta þýðir samt enn frekari hækkun á matarverði þar sem virðisaukaskatturinn leggst ofan á flutningskostnaðinn sem bætist við vöruverðið þegar varan kemur í smásöluverslanir. Ég held að mörgum mundi bregða í brún yfir því hve hátt hlutfall orkukostnaður og matarkostnaður er á mörgum heimilum á landsbyggðinni af þessum sökum.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar áðan að það væru tvær þjóðir í þessu landi. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að það eru að verða tvær þjóðir í þessu landi og hefur kannski verið hér á árum áður líka. Það eru þeir hópar sem þurfa að hafa sig alla við til að ná endum saman um hver mánaðamót og halda sjó. Síðan eru þeir hópar sem hafa góðar tekjur, þurfa ekki að horfa í hverja einustu krónu og geta veitt sér ýmsan munað eins og hann nefndi, utanlandsferðir oft á ári og verslunarferðir. Við þurfum að horfa á hvernig hægt er að jafna kjör fólks í landinu. Ég tel ekki réttu leiðina til að jafna kjör fólks í landinu að hækka virðisaukaskatt á orku og matvæli því að það eru þær grunnþarfir sem hver fjölskylda þarf að hafa. Hún kemst ekki undan því að kaupa mat og hita híbýli sín en láglaunafjölskyldur, og ekkert endilega láglaunafjölskyldur heldur bara meðalfjölskyldur á meðalkjörum, geta ekki veitt sér marga hluti sem hátekjumenn geta gert.

Það var mikið rætt um hve hátt hlutfall ráðstöfunartekna fer í matarinnkaup. Ef við gefum okkur tvær fjölskyldur, önnur hefur 200 þús. kr. í ráðstöfunartekjur og hin hefur 700 þús. kr. í ráðstöfunartekjur, og að 15% af þeim tekjum fari í matarinnkaup eins og hefur verið nefnt í umræðunni nýtir sú fjölskylda sem hefur lægri ráðstöfunartekjur 30 þús. kr. í matarinnkaup á mánuði en hin fjölskyldan, með hærri tekjurnar, nýtir 105 þús. kr. á mánuði í matarinnkaup.

Það segir sig sjálft að það sem menn geta verslað fyrir þessa upphæð hjá þessum tveimur sambærilegu fjölskyldum hlýtur að vera ansi ólík matvara ef við gefum okkur að 15% af ráðstöfunartekjum hvorrar fjölskyldu fari í þetta. Sú sem hefur 105 þús. kr. til þess að fylla matarkörfuna á mánuði getur eðlilega leyft sér meiri munað, ég tek bara svona dæmi, en sú sem er með meira en þrisvar sinnum minna til ráðstöfunar.

Mér finnst fólk oft gleyma því í þessari umræðu — eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi hér að hjá báðum fjölskyldum, þeirri tekjulægri og hinni tekjuhærri, stæði eftir það sama, 85% af ráðstöfunartekjum — hvað er eftir af ráðstöfunartekjum þeirrar fjölskyldu sem hefur 700 þús. kr. á mánuði. Hún á eftir 595 þús. kr., það er ýmislegt hægt að gera fyrir það, en hin fjölskyldan á eingöngu eftir 170 þús. kr. Það segir sig sjálft að sú fjölskylda þarf að forgangsraða ansi stíft til að komast af. Hún getur kannski ekki endilega glaðst yfir því að verið sé að lækka vörugjöld á þvottavélar, ísskápa, eldavélar, sjónvörp eða hvað sem við nefnum því að það tekur hana ansi langan tíma að leggja fyrir, ef eitthvað er hægt að leggja fyrir yfir höfuð, til að endurnýja þessi tæki sem hvert heimili telur orðið sjálfsagðan hlut og er sjálfsagður hlutur á hverju heimili. Það tekur hana langan tíma og yfirleitt þarf hún að taka neyslulán til þess yfir höfuð að geta það ef viðkomandi tæki bilar og það er ekkert annað val en að endurnýja það. Sú fjölskylda sem hefur meira til ráðstöfunar á mánuði getur eðlilega nýtt sér þau kostakjör sem eru í boði.

Þess vegna segi ég að það er leynt og ljóst, og ekki leynt lengur, staðið fyrir einni mestu tekjutilfærslu í landinu sem um getur. Vinstri stjórnin fór út í að jafna byrðarnar með þrepaskiptu skattkerfi, en þessi ríkisstjórn ætlar aldeilis að vinda ofan af því hratt og vel og gera eins og gert var síðustu 18 ár fyrir hrun, að auka byrðarnar á lágtekjufólk og meðaltekjufólk og létta byrðunum af hátekjufólki. Þannig lítur þetta út í mínum augum og í augum stórs hluta almennings sem blöskrar þessi forgangsröðun hjá ríkisstjórninni.