144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu minnar vil ég renna yfir helstu ártöl og ákvarðanir í sögu virðisaukaskattskerfisins á Íslandi.

Virðisaukaskattur var tekinn upp hér á landi í upphafi árs 1990. Hann var í einu þrepi en frá upphafi bar hluti af viðskiptum skatt sem er 0% en með heimild til að fá innskatt endurgreiddan. Hluti bar ekki skatt, þ.e. starfsemin getur ekki fengið greiddan virðisaukaskatt endurgreiddan.

Í upphafi var áformað að skatthlutfallið yrði 22% en áður en til framkvæmdanna kom var búið að hækka hlutfallið í 24,5% og þannig var það þar til hækkun í 25,5% kom til framkvæmda í upphafi árs 2010. Lægsta þrep virðisaukaskatts kom til sögunnar á miðju ári 1993 og nam 14%. Í því þrepi var sala á innlendum bókum og tímaritum, áskriftir að fjölmiðlum og útvarpsstöðvum svo og húshitun. Sala matvæla og gistiþjónusta fóru í lægra þrepið í upphafi árs 1994 en skatturinn á matvæli hafði að hluta til verið endurgreiddur fram að því.

Lægra þrepið var lækkað í 7% 1. mars 2007. Það gerðu sömu flokkar og nú vilja fara með 7% þrepið aftur til baka, að vísu í 12% en ekki í 14% þar sem það var áður. Breytingin sem var gerð 2007 varð til þess að munur á innskatti og útskatti var svo mikill að endurgreiðsla úr ríkissjóði óx umtalsvert. Sem dæmi skilaði hótel- og gistiþjónusta um 700 milljónum í tekjur í ríkissjóð á árinu 2006 en þau fengu endurgreitt úr ríkissjóði eftir breytinguna 300 milljónir árið 2007 og allar götur síðan hafa hótel og gistiheimili fengið hundruð milljóna endurgreidd ár hvert.

Ég lagði það til sem fjármálaráðherra á sínum tíma að taka hótelgistingu út úr lægra þrepinu en í lægra þrepinu eru ásamt gistingunni, afnotagjöld útvarpsstöðva, sala tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða, sala bóka og hljóðupptökur af lestri slíkra bóka, sala á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa og laugavatns, aðgangur að vegamannvirkjum, geisladiskar, hljómplötur, segulbönd og aðrir sambærilegir miðlar með tónlist en ekki mynd, sala á matvöru og öðrum vörum til manneldis en ekki sala á áfengi.

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur rætt það núna í rúmt ár að ráðast í þessar breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Mér finnst það frumvarp sem lagt hefur verið fram rýr afrakstur af rúmlega árs undirbúningsvinnu. Stýrihópur var ekki settur á laggirnar fyrr en í febrúar á þessu ári og starfshópar stýrihópsins hafa aðeins komið saman á þremur fundum samkvæmt skýringum með frumvarpinu. Stýrihópurinn átti meðal annars, samkvæmt erindisbréfi, að meta tekjuskiptingaráhrif breytinganna og líta til mótvægisaðgerða á grundvelli tekjujöfnunarsjónarmiða við fækkun þrepa og breikkun skattstofns. Ég á bágt með að trúa því að það hafi verið upplýst ákvörðun eftir útreikninga, t.d. á kjaraáhrifum eftir mismunandi tekjuhópum, sem leiddi til þeirrar hugmyndar að það að barnabætur færu upp í 11 milljarða dygði sem mótvægisaðgerðir við þessa róttæku breytingu.

Í fjárlögum fyrir árið 2013 voru samþykktir 10 milljarðar og 762 milljónir til barnabóta. Viðmið sem notuð voru við úthlutun þess árs voru ekki verðbætt árið 2014 og heildarupphæðin lækkuð í 10 milljarða og 200 milljónir. Í þeim tillögum sem hér eru settar fram sem mótvægisaðgerðir eru skerðingarmörkin í launum ekki verðbætt annað árið í röð. Barnabætur árið 2015 eiga áfram að byrja að skerðast við 200 þús. kr. mánaðarlaun hjá einstaklingum og 400 þús. kr. hjá hjónum. Því er raunhæft að spyrja hve stór sá hópur er sem fær óskertar bætur. Mér sýnist að hér sé enn og aftur verið að beita blekkingum til að láta hækkanir á mat líta betur út í augum landsmanna. Sporin hjá þessari ríkisstjórn hræða hvað þetta varðar.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði í ræðu sinni hér fyrr í dag að ástæðan fyrir því að valið var að hækka barnabætur hefði verið sú að greiningar hefðu sýnt að barnafólk ætti í mestum greiðsluvanda og nefndi greiningu Seðlabankans í því sambandi. Það var einmitt sama greining sem gaf tilefni til verulegrar hækkunar barnabóta í fjárlögum 2013 og hefði einnig átt að vera í ákvörðun barnabóta ársins 2014. En svo var ekki og það var meðvitað hjá stjórnarliðum að lækka barnabætur og hækka hvorki viðmið samkvæmt neysluvísitölu né launavísitölu. Ástæða var sannarlega til að gera það og til að hækka barnabætur enn meira.

Við afgreiðslu frumvarpa um skuldaniðurgreiðslu verðtryggðra fasteignalána á síðasta vorþingi voru gerðar breytingar á skattalögum. Ég nýtti það tækifæri til að leggja fram frekari breytingar á þeim lögum sem leitt hefði til hækkunar á barnabótum til þeirra fjölskyldna sem lægstu launin hafa. Barnabótum hafði þá þegar verið úthlutað tvisvar sinnum á árinu og var ljóst að umtalsverðir fjármunir sætu eftir í ríkissjóði í lok árs ef ekkert yrði að gert. Ég stóð í þeirri trú að meiri hluti alþingismanna mundi fagna þessum breytingartillögum og væri sammála mér um sanngirni þess að öll upphæðin, sem þeir höfðu samþykkt til barnabóta, gengi að fullu til barnafjölskyldna, ekki síst eftir að stjórnarþingmennirnir höfðu þá þegar samþykkt að veita tugi milljarða af ríkisfé til skuldaniðurgreiðslu fólks sem var ekki í nokkrum greiðsluvanda. Allar greiningar höfðu hins vegar sýnt, svo að ekki væri um villst, að það voru barnafjölskyldur, hvort sem þær skulduðu verðtryggð húsnæðislán eða væru á leigumarkaði, sem ættu við mikinn greiðsluvanda að stríða. Það væri sá hópur sem þyrfti fyrst og fremst á stuðningi að halda.

Einnig taldi ég að skýrsla um upplýsingar um aukinn fjölda fátækra barna á Íslandi styrkti málflutning minn verulega. Ég vonaði líka að ríkisstjórnin stæði við loforð sín um að gæta sérstaklega að hag barna og því yrðu breytingartillögurnar samþykktar. En að fór ekki svo og það voru mér gríðarleg vonbrigði að líta á atkvæðatöfluna við afgreiðslu breytingartillagna minna og sjá að allir stjórnarþingmennirnir í salnum greiddu atkvæði gegn henni, allir sem einn. Tillagan var felld með 36 atkvæðum hv. þingmanna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.

Við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins ársins 2014 lagði meiri hluti fjárlaganefndar til niðurskurð á barnabótum um 300 milljónum frá tillögum hæstv. fjármálaráðherra en hann hafði þá þegar lagt til lækkun á barnabótum frá fjárlögum 2013 um annað eins. Tillögu meiri hluta fjárlaganefndar var harðlega mótmælt bæði innan þings og utan og þær voru loks dregnar til baka. En þar sem breytingar á viðmiðunartölum barnabóta í skattalögum voru ekki samþykktar náðu tillögur formanns fjárlaganefndar og félaga hennar í fjárlaganefnd, um frekari skerðingu, fram að ganga og gott betur því að fjáraukalög, sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra mun væntanlega mæla fyrir innan tíðar, munu sennilega sýna að um 700 millj. kr. muni ganga til baka í ríkissjóð af þeirri upphæð sem Alþingi hafði þó samþykkt að mundi ganga til barnafólks og greiningar sýndu að þyrfti á því að halda og meiru til. Þeim tókst sem sagt að skerða hlut barnafólks bakdyramegin. Stjórnarliðar, hv. þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, virðast ekki hika við að hygla vildarvinum hæstv. ríkisstjórnar með milljarða gjalda- og skattafslætti en beita blekkingum til að skerða hlut þeirra sem verst standa.

Virðulegi forseti. Af hverju eru ekki fleiri þættir teknir inn í virðisaukaskattskerfið sem nú eru fyrir utan það? Hvað með laxveiði eða aðgangseyri í Bláa lónið? Hækkun þar mun örugglega ekki snerta fólkið í landinu sem er tekjulægst eða barnafólkið í mesta greiðsluvandanum. Það mun hins vegar auka tekjur ríkissjóðs, breikka skattstofninn eins og talað er um að gera eigi í erindisbréfi stýrihópsins.

Tölum um heildarmyndina, sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í ræðu sinni hér fyrr í dag þegar hann ræddi breytingar á virðisaukaskattskerfinu, afnám almennra vörugjalda og hækkun barnabóta. Og ég tek undir það með hæstv. ráðherra, það verður að líta á heildarmyndina. Og mér finnst afar mikilvægt að skattkerfi okkar skili nægum tekjum í ríkissjóð til að við getum rekið hér á landi gott velferðar- og menntakerfi og að það stuðli að jöfnuði í samfélaginu. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra notar það sem ein helstu rökin fyrir þessum breytingum, auk þess að einfalda kerfið, að það sé ekki góð leið til að jafna lífskjör í landinu að hafa það eins og það er og því þurfi að breyta því.

Hagfræðingar hafa fært fyrir því rök að undanþága frá almennu þrepi virðisaukaskatts sé ekki besta leiðin til jöfnunar lífskjara, það sé ekki besta leiðin til að stuðla að jöfnuði með óbeinum hætti í gegnum til dæmis verð á matvælum. Betra sé að gera það með beinum hætti í gegnum tekjuskattskerfið, með hækkun skattleysismarka og þrepaskiptu tekjuskattskerfi þannig að mótvægisaðgerð við hækkun matarskatts ætti því að vera styrking á þrepaskiptu tekjuskattskerfi. Það ætlar hæstv. ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hins vegar ekki að gera eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu, þvert á móti ætla þau að fletja tekjuskattinn út en það mun fyrst og fremst gagnast þeim sem hæstar tekjur hafa. Og í þessu frumvarpi eru engar mótvægisaðgerðir ætlaðar til að styrkja stöðu þeirra sem eiga engin börn og eru í vandræðum með að ná endum saman hver mánaðamót.

Virðulegi forseti. Mér virðist stefnan sem sagt vera sú að hækka verð á mat almennt en lækka óhollan sykraðan mat, leggja til barnabætur sem mótvægisaðgerðir, sem eru í raun lækkun frá barnabótum árið 2013 með skerðingu við 200 þús. kr. mánaðarlaun og fletja svo út tekjuskattskerfið á næsta ári og auka þannig ráðstöfunartekjur þeirra sem mest hafa fyrir. Slíkar aðgerðir geta jafnaðarmenn ekki stutt og munu berjast fyrir að þær nái ekki fram að ganga, því að þessi samsetning aðgerða mun auka ójöfnuð í samfélaginu og það er óásættanlegt.

Virðulegi forseti. Það má vera að sú umræða sem fram fer um þessar tillögur og þetta frumvarp hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sé í raun ekki til neins vegna þess að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi ekki stuðning stjórnarliða, t.d. hv. þingmanna Framsóknarflokksins, og muni þess vegna aldrei koma þessum málum hér í gegn. Þess vegna sé ekki ástæða til að ræða þetta mál. Hver veit? Þegar við ræddum hér frumvarpið um niðurfellingu eða niðurgreiðslu á verðtryggðum lánum, húsnæðislánum, tóku aðeins þeir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins til máls sem voru á móti frumvarpinu. Og nú tekur ekki einn einasti hv. þingmaður Framsóknarflokksins til máls. Að vísu er umræðunni ekki lokið og það má vera að úr því rætist.

Virðulegur forseti. Ég mun kalla eftir því að fá upplýsingar um það hvernig neysla fólks í landinu er eftir tekjutíundum og eftir virðisaukaskattsþrepum. Þegar við höfum fengið þær tölur á borðið þá getum við séð nákvæmlega: Hvað eru þeir sem eru í lægsta þrepinu, lægsta 10% tekjuþrepinu, að eyða stórum hluta af tekjum sínum í vörur sem eru í almenna virðisaukaskattsþrepinu, í 7% þrepinu, 0% eða í það sem er fyrir utan kerfið? Þegar við sjáum það fyrir framan okkur þá getum við sannarlega tekist á um hvaða mótvægisaðgerðir duga best, því að vissulega er hægt að fá ágætar meðaltalstölur eftir því hvernig við leggjum þær upp og eru líka sýndar hér í skýringum með frumvarpinu.