144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og málefnalega ræðu. Sérstaklega hafði ég gaman af sögulegri skýringu hennar á uppruna og framþróun virðisaukaskattskerfisins sem er alltaf jafn áhugavert.

Hv. þingmanni varð minna tíðrætt um vörugjöldin og samkvæmt frumvarpinu, 2. gr., er lagt til að lögin nr. 97/1987, um vörugjöld, falli brott, það er bara allt burt. Ég hélt að þetta yrði bara ekki hægt svona. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann ekki ásamt mér glaður yfir því að þetta skuli gerast vegna þess að vörugjöldin flækja málin mjög mikið? Þau eru ekkert sérstaklega auðveld í innheimtu vegna þess að þetta á líka við um innlendar vörur sem eru framleiddar hér á landi og vörugjöldin hafa að geyma margar furðulegar gamlar leifar af ýmsu. Þetta mun lækka verð á vörum og viðhaldshlutum í bifreiðar og annað slíkt um 17–20%.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann ekki ánægður með þessa skattalækkun sem kemur heimilunum almennt til góða, mér heyrist oft eitt mesta vandkvæðið hjá tekjulágum heimilum vera þegar bíllinn bilar. Þá þarf að kaupa dýra varahluti sem hafa borið mjög hátt vörugjald. Svo bilar ísskápurinn og svo bilar þvottavélin o.s.frv. Og alltaf verður að kaupa viðkomandi hlut vegna þess að heimilin komast ekki af án þess. Er hv. þingmaður ekki sammála mér í því að það sé ljómandi góður flötur á þessu frumvarpi að lækka og fella niður öll þessi vörugjöld?