144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki óánægð með að fella niður almenn vörugjöld og einkum og sér í lagi ef afkoma ríkissjóðs er þannig að mögulegt er að bjóða upp á slíka lækkun. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að afkomubati ríkissjóðs sé ekki mikill og það sýna reyndar áætlanir hæstv. ríkisstjórnar. Ef maður horfir bara á línuritin þá sjáum við hvernig málin breyttust og súlurnar fóru allar í rétta átt á síðasta kjörtímabili en nú er komin einhver stöðnun í hlutina og afkomubatinn virðist ekki ætla að vera mikill á næstu árum.

Já, ég trúi því að það sé til bóta að fella brott vörugjöldin nema ég vil halda vörugjöldum á óhollustu. Ég vil halda vörugjöldum sem geta orðið til þess að stýra fólki frá því að kaupa óhollar vörur sem valda skaða og kostnaði. Ég vil halda vörugjöldum á sykur, á áfengi, á tóbak og á mengandi bifreiðum, þannig að þetta er bæði gott og slæmt. Ég get ekki stutt það að vörugjöld á sykri séu felld niður og mér finnst það afar óskynsamlegt í alla staði. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum Framsóknarflokksins sem hafa skrifað um það greinar og fært fyrir því rök af hverju skynsamlegt er að halda sykurskattinum inni. Einhverjir þeirra hafa meira að segja rætt um að hægt væri að safna þessum vörugjöldum á sykri saman og byggja Landspítala.