144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skattkerfisbreytingar, þ.e. breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Ég ætla að nota tíma minn í kvöld til að ræða fyrirhugaðar breytingar, sem sagt þann þátt fyrirhugaðra breytinga að hækka virðisaukaskatt á menningu og mat úr 7% í 12% sem og niðurfellingu vörugjalda og þar með talið sykurskattinn margnefnda, og þau áhrif sem þessar breytingar koma til með að hafa á samfélagið okkar og þær áhyggjur sem ég hef af þeim samfélagsbreytingum sem verða í kjölfarið.

Það má í raun segja að öllu sé snúið á hvolf í því hvernig ég telji gott og sanngjarnt samfélag eiga að vera byggt upp. Það hefur verið nefnt að virðisaukaskattskerfið sé kannski ekki það áhrifaríkasta til þess að koma á tekjujöfnun, kannski ekki það áhrifaríkasta en hluti af heildstæðara kerfi sem við búum við. Það er, eins og hefur verið nefnt, verið að falla frá frekari skattlagningu á hátekjufólk, þannig að ég held að þegar heildarmyndin er skoðuð komi þetta auðvitað til með að hafa áhrif úti um allt í samfélaginu. Ég er hrædd um að þær breytingar sem hér eru lagðar til muni leiða til aukinnar stéttaskiptingar þar sem hollur matur og menning verða aðeins á færi þeirra sem betur mega sín í samfélaginu og það finnst mér alveg hrikalega slæmt.

Ég hef meðal annars áhyggjur af því að með hækkuðum sköttum á mat færist neyslan yfir í ódýrari og lakari matvörur sem eru ekki jafn heilsusamlegar og að fólk, og þá sérstaklega það fólk sem hefur mjög lágar upphæðir sér til framfærslu og sér í lagi þá fólk sem hefur mjög lágar upphæðir sér til framfærslu til langs tíma, svo sem öryrkjar, geti farið mjög illa út úr þessum kerfisbreytingum sem séu þá í raun hrein kjaraskerðing fyrir þann hóp. Einnig að hækkun á virðisaukaskatti á mat leiði til þess að neyslan færist út í ódýrari og lakari vörur, eins og ég sagði, þar sem tekjulágt fólk hafi einfaldlega ekki efni á að kaupa sér hollan og ferskan mat á borð við kjöt og fisk eða grænmeti og neyðist þá fjárhagsins vegna til þess að velja ódýrari, óhollari mat sem veitir engu að síður magafylli, því að öll þurfum við jú að borða og viljum helst komast hjá því að vera svöng, hverjar sem tekjur okkar svo eru.

Eins og formaður Öryrkjabandalagsins hefur bent á eru nú þegar margir örorkulífeyrisþegar sem hafa hreinlega ekki mat út mánuðinn og þetta er auðvitað það sem við þekkjum mjög vel, í dagblöðum birtast með reglulegu millibili fréttir um biðraðir eftir mat o.s.frv. Ég er hrædd um að með þessari aðgerð séum við að færast í ranga átt, að við förum fjær því að nálgast það að allir hafi efni á mat út mánuðinn.

Á sama tíma eru áform uppi um að fella niður sykurskattinn þannig að óhollari sykraðar vörur lækka í verði. Víða erlendis er það svo að hollar og lítið unnar matvörur eru orðnar forréttindi þeirra sem betur mega sín í samfélögum en ódýrari, næringarsnauðari, aukaefnabættari, geymsluþolnari, og svona mætti í raun lengi telja, vörur eru hins vegar ódýrari og því fæða þeirra sem hafa minni fjárráð. Ég held að því miður sé þetta að einhverju leyti líka staðan á Íslandi, að tekjulágt fólk leyfi sér hreinlega minna þegar kemur að mat og þá endurtek ég það sem ég sagði áðan, að ég tel að með þessum breytingum séum við aftur að færast í vitlausa átt, ekki í átt til þess að geta tekið á því heldur í öfuga átt, að það verði líklegra að tekjulágt fólk leiti í ódýrari matinn.

Með þessu er verið að snúa lýðheilsusjónarmiðum á hvolf. Með stýringu erum við að beina neyslunni í óhollari mat. Það er kannski ekki neitt sem kemur fram alveg strax en ég tel að það muni koma fram á einhverjum árum í formi lélegri heilsu landsmanna og þar sé hætt við því að þeir sem eru tekjulægri komi enn verr út úr því og það er oft hópur sem má kannski enn síður við því að búa við lakara heilsufar. Öryrkjar, langveikt fólk er oft einmitt það fólk sem ætti að borða hollasta matinn því að það þarf sérstaklega á því að halda að byggja sig upp.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði um það fyrr í dag að mikilvægt sé að horfa á heildarmyndina, þ.e. alla neysluþættina þegar kemur að þessum virðisaukaskattsbreytingum, og telur að að meðaltali komi fólkið betur út þegar sem flestir neysluþættir eru teknir inn. Ég hef svolitlar efasemdir um slíka meðaltalsútreikninga. Eins og hefur verið bent á fyrr í dag er það svo að þótt ein manneskja komi betur út vegna þess að niðurfelling á vörugjöldum kemur henni vel og hún getur keypt sér ódýrari raftæki þá koma þær breytingar ekki þeim til góða sem eru ekki neitt á leiðinni eða hafa ekki efni á því að fjárfesta í slíkum tækjum og eyða nálega öllu sínu ráðstöfunarfé í mat. Ég er þess vegna hrædd um að ráðherrann sjái ekki eða vilji ekki sjá þá mynd sem blasir við tekjulágu fólki, því fólki sem hefur ekki einu sinni efni á mat og er þess vegna, eins og ég sagði, ekkert á leiðinni að fara að kaupa aðrar vörur. Það græðir ekki mikið á því að þetta komi að meðaltali voðalega vel út fyrir þjóðina í heild. Ég er því ósammála hæstv. ráðherra, þó svo að þetta jafnist út finnst mér það ekki nógu góð röksemd af því að þótt til séu meðaltöl veit maður aldrei hvort maður lendir inni í meðaltalinu eða einhvers staðar á jaðrinum.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði líka í morgun um það að horfa á málin út frá ráðstöfunartekjum. Gott og vel, ég er til í það og við getum skoðað dæmi. Meðalbætur öryrkja sem fær framfærsluuppbót en ekki heimilisuppbót eru 188 þúsund fyrir skatta. Með heimilisuppbótinni, sem einungis 30% öryrkja fá, hækkar talan í tæpar 216 þúsund. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 2015 á að hækka þessar bætur almannatrygginga um 3,5%. Ég held að þessi hópur sé ekki líklegur til að komast inn í meðaltalið, þ.e. þeirra sem jafnast út þar sem eru vörugjöld annars vegar og hækkun á skatti á mat hins vegar, hvernig það jafnast út.

Það hefur oft í dag verið talað um að hluti af þjóðinni fari til útlanda og kaupi þar ýmsar nauðsynjavörur. Þessi hópur er heldur ekkert í því. Hann græðir svo sannarlega ekki á því, en hann græðir heldur ekkert á því að vörugjöldin séu felld niður hérna heima því að hann er einfaldlega í þeirri stöðu að fresta öllu sem ekki eru lífsnauðsynjar, hann treinir sér það eins og hann getur að ráðstafa peningunum sínum í annað en það sem er húsnæði og matur. Húsaskjól og matur eru forgangsatriði.

Það var rætt um það í umræðum um fjárlagafrumvarpið að nauðsynlegt væri að greina það út frá því hvaða áhrif það hefur á ólíka tekjuhópa, sem ég tók undir og fannst raunar vera mjög góð hugmynd. Ég held að tekjuöflunarfrumvörpin hefðu mjög gott af því að vera líka greind út frá því hvaða áhrif þau hafa á ólíka tekjuhópa, því að ég er hrædd við áhrifin þegar kemur að þeim sem hafa lægstu ráðstöfunartekjurnar. Ég held að við þurfum að hafa verulegar áhyggjur af þeim hópi, ég tel alla vega að við viljum vera með þannig samfélag að allir lifi við mannsæmandi kjör. Þess vegna held ég að við hljótum að skoða það hvernig við getum haft jákvæð áhrif til þess að bæta stöðu þeirra sem hafa lægstu tekjurnar og því miður held ég að með þeim skattkerfisbreytingum sem hér eru boðaðar séum við að halda í alveg kolvitlausa átt.