144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir ágætisræðu. Ég er reyndar ekki sammála öllu, en ég tek alla vega undir að það sé nauðsyn í nefndinni sem fær þetta til skoðunar, hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að skoða ekki bara fjórðunga í tekjum heldur tíundir til að reyna að finna út hvort einhverjir hópar séu að fara illa út úr þessu og þá sérstaklega að eyða þeim vanda sem felst í því að námsmenn fá lánað fyrir framfærslu og skekkja alla tölfræði. Þeir eru oft með mjög lágar tekjur og oft með tekjur sem eru bara ómögulegt að lifa af, enda fá þeir lánað fyrir lifibrauði.

Ég mundi gjarnan vilja skoða þetta nánar og sjá hvort einhverjir hópar verða þarna út undan. Ég á reyndar ekki von á því.

Síðan segir hv. þingmaður að það sé nauðsynlegt að tryggja að fólk hafi efni á lífsnauðsynjum. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur hann komið inn á heimili, fátækt eða ríkt, þar sem ekki er þvottavél? Þar sem ekki er ísskápur? Þar sem ekki er eldavél? Þetta fólk þarf allt að kaupa þessa hluti. Það þarf að kaupa þessa hluti og það kaupir þá. Það getur verið að það kaupi þá á Bland.is, notuð tæki, en notuð tæki lækka með lækkun á nýjum tækjum. Frumvarpið er þegar farið að virka þannig að rafmagnsverslanir eru farnar að auglýsa lækkun upp á 17–20% sem þýðir að allar notaðar vörur lækka líka um 17–20%. Gott fyrir þá sem hafa lægstu tekjurnar og þurfa að kaupa sér notað. Inn í þetta falla líka varahlutir í bíla sem margir eiga.

Svo sagði hv. þingmaður sé mikilvægt að hafa sterka skattstofna. Eru þetta ekki styrkleiki skattstofns að verið sé að einfalda kerfið þannig að erfiðara sé að svíkja undan skatti?