144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að þeir sem hafa hærri tekjurnar endurnýi tæki oftar en þörf er á, en þar sem ég þekki til endurnýja menn þvottavélina þegar hún bilar og borgar sig ekki að gera við hana. Ef það borgar sig að gera við hana þá lækkar vörugjaldið á varahlutum þannig að það verður ódýrara að gera við hana ef eitthvað er. Menn kaupa þessi tæki og neyðast til að kaupa þau þegar þau bila og það borgar sig ekki að gera við þau. Sama er með bílinn. Menn verða að gera við bílinn eða henda honum ella. Þannig að menn hafa ekkert val. Þá er ágætt, herra forseti, að þessar vörur lækki um 17–20%. Mér finnst það bara ágætt.

Varðandi sterka skattstofna: Eftir því sem skattkerfið er flóknara og með fleiri undanþágur geta menn meira spilað á það. Ég vil nefna sem dæmi hótel sem selja gistingu, hádegis- og kvöldmat, ferðir, í einum pakka. Gistingin er núna með 7% skatti. Maturinn, kvöld- og hádegismatur, er með 25,5% skatti. Og hundasleðaferðin er án skatts. Hvað skyldu menn gera? Jú, maturinn er allt í einu óskaplega ódýr, hann kostar ekki nema 750 kr., bæði kvöldmatur og hádegismatur í einum pakka. Hundasleðaferðin er óskaplega dýr, það er enginn virðisaukaskattur á henni, og gistingin verður líka nokkuð dýr af því það er 7% á henni. Ekkert rangt við þetta, herra forseti, ekkert rangt við þetta. Menn borga virðisaukaskatt eins og þá langar til með því að hagræða svona innan pakkans sem þeir selja í einu lagi. Þetta er ekki skattsvik. Þarna er verið að hliðra til.

Eftir því sem skattkerfið er flóknara og meiri munur á milli skattþrepa þeim mun meiri hvati er til að gera þetta.