144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að spyrja af því að ég er í dálitlum vandræðum með ákveðna hugtakanotkun í þessari umræðu allri. Í fyrsta lagi tala menn hér um að frumvarpið sé til bóta, eins og kemur fram í máli hv. þingmanns, (PHB: Mjög til bóta.) mjög til bóta. Honum líst vel á frumvarpið í heild og í prinsippinu líst honum alltaf vel á skattalækkanir. Það snýst þó um það að niðurstaðan í heild sé skattalækkun þótt einstakir þættir geti verið skattahækkanir o.s.frv., eins og til að mynda matarskattur, þá sé summutalan meginefnið ef ég skil hann rétt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi þessarar einföldu spurningar: Hvert er markmiðið með þessum breytingum?

Hann nefnir sjálfur skattalækkanir og einföldun á skattkerfinu. Þá vil ég heyra hvað liggur þar að baki.

Af hverju eru skattalækkanir til góðs? Og af hverju er einföldun á skattkerfi út af fyrir sig til góðs? Ef svo er að einföldunin ein og sér er til góðs, af hverju þarf mótvægisaðgerðir? Eru mótvægisaðgerðir ekki flóknar að jafnaði, og mótvægi gegn hverju? Hvað er það sem stjórnvöld þurfa að bregðast við? Valda stjórnvöld þá þannig skaða að beita þurfi mótvægisaðgerðum eins og hækkun á barnabótum? Er það ekki til þess að flækja kerfið? Eru hækkaðar barnabætur fullnægjandi mótvægisaðgerðir gagnvart til að mynda hækkun á virðisaukaskatti á bækur? Eða hvaða mótvægi er þar verið að beita? Á hvers konar hækkun virka hækkaðar barnabætur? Fyrir hvern virkar það? Af hverju eru þeir hópar teknir (Forseti hringir.) sérstaklega út þegar verið er að beita þessum mótvægisaðgerðum?