144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Væri ég einn þeirrar skoðunar að einföldun skattkerfis sé slæm efaðist ég dálítið um eigin skoðun. Ég er ekki einn um hana. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur bent á það og mjög margir hafa bent á að mjög gott sé að einfalda kerfið vegna þess að einföldunin gerir það að verkum að erfiðara er að svindla á því. Það er erfiðara að svindla á kerfinu og minni hvati til þess. Þau eru reyndar fjögur skattþrep eftir þessa breytingu: 24% í hæsta, síðan 12%, svo 0% og að lokum ekki skattskylt. Þannig að eftir því sem kerfið er einfaldara því mun erfiðara er að svindla á því, og einnig því færri sem undanþágurnar eru. Ef skattkerfið er þannig að það nær yfir allt og er eitt þrep er nánast ógjörningur að svindla. En í dag er náttúrlega allt heilbrigðiskerfið, allt menntakerfið, stór hluti af flutningum og fjármálakerfið undanþegið virðisaukaskatti. Það býður upp á möguleika. Einföldunin er því yfirleitt til góðs.

Síðan er það skattalækkun. Að mínu mati og það er trú mín, og ég skil vel að hv. þingmaður sé annarrar skoðunar, hann hefur aðra heimssýn, að skattalækkun auki umsvif í þjóðfélaginu og gefi ríkissjóði jafnvel meiri skatttekjur. Það hefur margoft gerst. Ég minni á lækkun á tekjuskatti hérna um árið o.s.frv.

Af hverju eru menn með mótvægisaðgerðir? Það er einmitt til að mæta þeirri umræðu sem hefur verið hér í allan dag um að þetta lendi á lágtekjufólki. Sú umræða finnst mér vera án raka. Það eru engin rök fyrir því. Það eru meira að segja komin rök fyrir því að það sé öfugt. En ég vil gjarnan skoða í hv. nefnd á hvaða hópum þetta lendir illa.