144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Er það þá rétt skilið hjá mér að hv. þingmaður telji að það kunni að vera að þær mótvægisaðgerðir sem þegar hafa verið kynntar til sögunnar nýtist ekki vegna þess að frumvarpið, án mótvægisaðgerða, sé einfaldlega til góðs þar sem skattalækkanir auki hagsæld og almennan fögnuð í samfélaginu? Ég bið hv. þingmann að leiðrétta mig ef þetta er ekki rétt skilið. Ég þakka honum sérstaklega fyrir hvernig hann orðar það þegar hann segir: Ég hef þá trú. Það er akkúrat sú tilfinning sem ég hef oft þegar hægri menn tala um skatta, að það snúist kannski frekar um trú en raunverulega rökstudda afstöðu. Ég bið hann að nefna mér dæmi um það þar sem hagsæld hefur verið upp á við í samfélögum, og þá tala ég um aukinn jöfnuð og aukið réttlæti fyrir þá hópa sem minnst hafa, við það að lækka skatta.