144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Í fyrsta lagi varðandi barnabæturnar og mótvægisaðgerðir og hvort þörf sé á þeim fyrst skattalækkunin og einföldunin er nóg. Ég er bara svo félagslega sinnaður að ég vil gjarnan gera vel við barnafólk. Þannig að ef það er hægt og mögulegt og hluti af þessum pakka, hví ekki? Ég vil meira að segja skoða það kerfi allt saman enn betur.

Hvað varðar að skattkerfi auki tekjur ríkissjóðs var það nefnilega þannig á Íslandi. Skattur á fyrirtækjum var lækkaður stórkostlega. Hvað gerðist? Tekjur ríkissjóðs af skatti á fyrirtæki stórjukust. Skattur á tekjur einstaklinga voru lækkaðar. Hvað gerðist? Tekjur ríkissjóðs jukust. Meira að segja erfðafjárskatturinn var lækkaður stórkostlega og einfaldaður. (Gripið fram í.)Og hvað gerðist? Tekjur ríkissjóðs jukust. Það dóu ekkert endilega fleiri. En menn voru ekki að nota alls konar tilfæringar eins og fyrir fram greiddan arf og slíkt til þess að komast hjá skattinum.