144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þarna er ég ekki sammála hv. þingmanni, alls ekki. Ég vil ekkert vera að stýra neyslu fullorðins fólks. Hvernig dettur mönnum í hug að fara að segja við fólk: Heyrðu, þú mátt borða þetta en ekki þetta? Hvernig er með feitmeti? Eigum við ekki að fara að skattleggja smjör og feitt kjöt og annað slíkt? (ÁPÁ: Hvað með áfengisgjald?) Það er mjög hættulegt.

Við erum með áfengisgjald, jú, jú, vissulega er neyslustýring fólgin í því. En ég vil hverfa frá — ég held til dæmis að sykurskatturinn, ég hef reyndar ekki fengið skoðun á því, við getum skoðað það í nefndinni, hvort neysla á sykri hafi raunverulega lækkað eða minnkað. Ég er ekkert viss um að dregið hafi úr henni. Ég hugsa að kaup á nammi séu ekkert svo voðalega viðkvæm fyrir verðinu, alls ekki, og verðið er eiginlega ekki endilega í tengslum við framleiðslukostnaðinn þannig að inn í þetta blandast mjög margir þættir. En ég er mjög ánægður með að fella niður vörugjöld, það verð ég að endurtaka enn einu sinni.