144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Fullyrðing hv. þingmanns um það að Íslendingar borgi lægstu skatta er skekkt með þeirri staðreynd að við borgum 12% af launum í lífeyrissjóði samkvæmt lögum, við komumst ekki hjá því. Ég lít á það sem skatta líka. Og þá kann að vera að þessi fullyrðing breytist.

Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni í því að vera með skattkerfi sem tekjuöflun fyrir velferðarkerfið. Ég tel velferðarkerfið vera mjög mikilvægt, hef margoft nefnt það, en það þarf að vera skilvirkt, það þarf að vera réttlátt og það þarf að vera rökrétt. Það mega ekki vera einhverjar veilur í því eins og mjög oft er einmitt í dag. Ég vil því hafa tekjuöflunarkerfi sem er skatturinn, en hann má heldur ekki fara yfir ákveðið mark sem Laffer benti á, sem heitir Laffer-kúrfa og enginn veit hvar er. En þegar skatturinn fer yfir ákveðin mörk þá lækka tekjur ríkissjóðs, við hverja hækkun. Það má vel vera og ég hef þá trú, þó að ég viti það ekki, að í virðisaukaskattinum séum við komin yfir þessi mörk.