144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei kynnst hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni nema hér í þessum þingsölum. Ég get sagt það að mér þykir hann bera af mörgum um andlegt atgervi og sannarlega stendur hann mér miklu framar í því. Hann er líka miklu kjarkmeiri en ég, segir hlutina umbúðalaust. Þess vegna er það óvanalegt að hv. þingmaður flytji ræðu sem er þess eðlis að bæði er hægt að bregða honum um kjarkleysi og líka skort á þokkalegum rökum.

Er það einfaldlega þannig að hv. þingmaður þorir ekki að hafa skoðun á því hvort samstarfsflokkur hans hafi einhverja sannfæringu í málinu? Blasir það ekki við að samstarfsflokkurinn hefur út og suður, alls staðar nema á Alþingi Íslendinga, verið að belgja sig út um að hann ætli ekki að samþykkja þetta? Hér þorir hann ekki að gefa upp neina skoðun, hér talar enginn af hálfu Framsóknarflokksins.

Hvaða röklegu ályktun mætti draga af þessu? Mun Framsóknarflokkurinn samþykkja þetta frumvarp? Ég held ekki. Ég held að Framsóknarflokkurinn muni þegar í áfangastað kemur skoða það hvaða niðurstaða fellur best í jarðveginn sem þar er og ég tel að hún verði ekki sú sem Sjálfstæðisflokkurinn vill.

Ég gæti haldið langa ræðu um það og á hugsanlega eftir að gera það hér í kvöld. Hitt þótti mér miklu verra að heyra hv. þingmann segja: Jú, hann telur að það eigi ekki að búa til eitt virðisaukaskattsþrep við 20% nema bæta öllum upp það sem þeir missa. Við vorum þar að tala um tekjulægstu hópana. En af hverju á það þá ekki að gilda um þetta frumvarp? Það er hreinlega út í hött sem hv. þingmaður hefur sagt í dag að tekjulægstu hópunum sé bætt það upp með því að fella niður vörugjöld af rándýrum hlutum. Veit hv. þingmaður ekki hvernig fólk bjargar sér í dag? Heldur hann að þeir sem eru með 160–200 þús. kr. á mánuði, þegar frystiskápurinn ónýtist, fari og kaupi sér nýjan fyrir ein mánaðarlaun, (Forseti hringir.) fyrir peninga sem ekki eru til? Hagkerfið á Íslandi virkar með allt öðrum hætti og reynsluheimur Sjálfstæðisflokksins er þá undarlegur ef hann veit (Forseti hringir.) ekki hvernig þetta gengur fyrir sig.

(VilB: Ég get ekki svarað spurningum þingmannsins.)

(Forseti (SJS): Forseti vill vekja athygli á að orðaskiptum hv. þingmanna er lokið.)