144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér, eins og öllum hv. þingmönnum í salnum og þeim sem hafa fylgst með umræðunni er ljóst, frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, brottfall laga um vörugjald og breytingu á lögum um tekjuskatt.

Virðulegi forseti. Fjárlög, hvort heldur sem rætt er um tekjuhlið eða útgjaldahlið, birta og eiga að birta skýra stefnu hverrar ríkisstjórnar. Ríkisfjármálastefnan, samspil hennar og hagvaxtar hefur áhrif á okkur öll, hagkerfið allt. Ég segi það hér að styrkur þessa frumvarps er sá að það er í fullu samræmi við áform og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar að breyta hér skattkerfinu til einföldunar, aukinnar skilvirkni og hagkvæmari nýtingar framleiðsluþátta, lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki og auka þannig ráðstöfunartekjur einstaklinga og styðja við atvinnulífið.

Virðisaukaskattskerfið hefur verið að gefa eftir á undanliðnum árum og missirum. Það kemur ágætlega fram í frumvarpinu sem við ræðum að vægi skattsins af heildarskatttekjum ríkissjóðs hefur lækkað úr 35% frá 2006 í 29% árið 2013. Það bendir til þess að kerfið sé ekki nægilega skilvirkt. Það eitt mögulega kallar á breytingar. Jafnframt er athyglisvert að yfir lengri tíma virðist sem kerfið hafi gefið stöðugt eftir óháð hagsveiflum, hvort sem við höfum upplifað hér samdrátt og kreppu eða uppsveiflu og góðæri.

Virðulegi forseti. Umræðan hér í dag hefur verið mjög gagnleg. Mér hefur heyrst það á flestum hv. þingmönnum sem hafa talað að það sé fyllsta ástæða til að endurskoða skattkerfið með breytingar í huga. Hér er vissulega verið að leggja til breytingar og eru þær í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að létta skattbyrði einstaklinga og einfalda skattkerfið, auka skilvirkni þess og styðja þannig við atvinnulífið. Það er stóra myndin.

Gagnrýnin sem hér hefur komið fram hefur einskorðast við áhrif á einstaka þætti. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir kom ágætlega inn á það hér áðan og talaði um félagslegar víddir og svo mismunandi áhrif á mismunandi tekjuhópa. Þar lagði hv. þm. Pétur H. Blöndal til að hv. efnahags- og viðskiptanefnd mundi skoða ekki bara fjórðungshópa heldur í tíundum.

Í þessu frumvarpi er lagt til að almenna hlutfallið lækki úr 25,5% í 24% og að lægra skatthlutfallið í virðisaukaskatti hækki úr 7% í 12%. Undanþágum frá skattskyldu í virðisauka er fækkað þar sem fólksflutningar í afþreyingarskyni verða skattskyldir í lægra þrepinu. Þetta er kjarni breytinganna. Þarna birtist einföldunin og aukin skilvirkni.

Ég greini ekki annað en að flestir hv. þingmenn séu sammála því að bilið milli hærra og lægra þrepsins beri að minnka. Menn greinir eðlilega á um einstaka þætti og möguleg áhrif á einstaka hópa, ráðstöfunartekjur og kaupmátt. Þar hefur helst verið tekist á um hlut mismunandi hópa, eftir því hvað þeir hafa í tekjur, og virðisaukaskatt sem tekjujöfnunartæki, hlut matvæla, áhrif á bókaútgáfu og bókaútgefendur og vörugjald á sykur sem á að afnema, svokallaðan sykurskatt þar sem tekist er á um lýðheilsusjónarmið og neyslustýringu eftir atvikum og hlutverk skatta að því leyti.

Virðulegi forseti. Það er hollt að skoða hvernig þessum málum er háttað hjá öðrum, eins og hefur komið fram hjá mörgum hv. þingmönnum, hvernig kerfið virkar hjá öðrum þjóðum. Í Danmörku er eitt þrep, 25%. Það er hærra en hærra þrepið okkar sem fyrirhugað er í þessu frumvarpi. Þar eru matvæli meðtalin. Í Finnlandi er 24% þrep á flestar vörur og þjónustu og 14% á matvæli. Það er hærra en fyrirhugað þrep hér á matvæli, 12%. Þar er 10% virðisaukaskattur á bækur og lyf þannig að skatturinn er lagskiptari í Finnlandi. Í Svíþjóð er almenna þrepið 25%. Þar er 12% skattur á matvæli en 6% á bækur og tímarit, fleiri þrep, mögulega óskilvirkara kerfi. Í Noregi er virðisaukaskatturinn almennt 25% en 15% á matvæli. Þar er jafnframt 8% þrep á t.d. samgöngur.

Virðulegi forseti. Í umfjöllun um einstaka liði frumvarpsins kemur fram að heildaráhrifin á afkomu ríkissjóðs af virðisaukaskattsbreytingunum verði 3,8 milljarðar þar sem hækkun á lægra þrepi hækkar álögur um 11 milljarða og lækkun á hærra þrepi kemur til lækkunar upp á 7,5 milljarða. Með afnámi vörugjaldsins er svo áætlað að ríkissjóður fari á mis við eða afsali sér tekjum upp á 6,5 milljarða. Hér er ekki síður mikilvægt að skoða afnám vörugjaldsins en sú aðgerð leiðir til, eins og til er ætlast, aukinnar skilvirkni og einföldunar fyrir atvinnulífið. Hvað erum við að tala um þegar við ræðum um einföldun? Fyrirtæki geta þá eytt orkunni og tímanum í annað en að hitta „á rétta vörugjaldsflokka“ sem eru orðnir æðimargir með árunum og þeir sem gjörla þekkja þetta kerfi segja oft hreint ekki augljóst.

Gjarnan er tekist á um réttlæti eða virkni skattsins sem neyslustýringartækis og lýðheilsusjónarmiðum þá haldið á lofti. Ég held að allir hv. þingmenn taki undir lýðheilsusjónarmið, allir með tölu. Ég leyfi mér að fullyrða það hér. En það má vissulega færa fyrir því rök að fræðsla í forvarnaskyni sé öflugra tæki en skattlagning. Þess er getið í frumvarpinu á bls. 7 að ekki sé talið líklegt að sú gjaldtaka sem nú fer fram í formi 21 kr. vörugjalds á hvern lítra af gosdrykkjum dragi úr neyslu þeirra svo heitið geti. Engar beinar rannsóknir liggja þó fyrir í þeim efnum og það hefur komið fram í umræðunni m.a. hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Í skýrslu AGS frá því í maí 2014 kemur þó fram að stofnunin telur líklegt að vörugjaldið sé of lágt til að hafa þau áhrif að draga úr neyslu fólks á gjaldskyldum sykruðum vörum. Niðurfelling vörugjalda á sykraðar vörur breytir ekki markmiðum stjórnvalda um að reyna að bæta lýðheilsu fólks. Ég hneigist til þeirrar skoðunar að fræðsla sé sterkasta forvarnavopnið og miðlun upplýsinga á þessu sviði sem flestum öðrum.

Hér hefur þingmönnum verið tíðrætt um áhrif á tekjulægstu hópana. Það er vissulega verkefni að þessar breytingar gagnist öllum og að tryggja jafnræði sem frekast er unnt fyrir alla hópa. Það er nú einu sinni þannig að einstaklingar eru almennt skynsamir og við eigum að treysta þeim best til að ráðstafa tekjum sínum þannig að hagur vænkist. Hér er komið til móts við barnafjölskyldur sem gjarnan hafa þyngri matarreikning. Barnabætur með hverju barni undir 18 ára aldri verða hækkaðar um 13% þegar búið er að taka tillit til 2,5% verðlagsuppfærslu. Útgjaldaáhrif á ríkissjóð verða um 1 milljarður. Þegar allt er talið verða heildaráhrifin á afkomu ríkissjóðs, sem ég trúi að skipti mestu máli þegar við tölum um svo veigamikið og stefnumarkandi frumvarp, lækkun upp á 3,7 milljarða. Ríkissjóður verður af eða fer á mis við 3,7 milljarða. Það má orða það öðruvísi. Það má orða það svo að þessir milljarðar verði eftir í hagkerfinu hjá einstaklingum og atvinnulífinu.

Umræðan bæði hér í dag og í fjölmiðlum hefur einangrast við afmarkaða þætti í frumvarpinu. Þar hafa komið fram talnagögn, m.a. frá VR, ASÍ og Viðskiptaráði, allt gildandi aðilar og allt mikilvægar upplýsingar og gögn í umræðuna sem á án efa á eftir að nýtast hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta eru ekki bara mikilvægar upplýsingar heldur er nauðsynlegt að gaumgæfa betur og setja í samhengi þessi gögn við tilætluð áhrif af aðgerðunum sem boðaðar eru í frumvarpinu. Það er eðli málsins, tilætlun hinnar þinglegu meðferðar. Ég held að það sé ekki vænlegt að flagga hér afmörkuðum upplýsingum til þess eins að rökstyðja mál eða mæla gegn. Ég legg hins vegar áherslu á að hv. nefnd skoði vel og dragi fram það sem skiptir máli.

Virðulegi forseti. Tillögurnar sem við ræðum hér og snúa að breytingum á virðisaukaskattskerfinu og mótvægisaðgerðum, m.a. í formi barnabóta, munu hafa áhrif á verðlag. Það er metið svo þegar allt er talið að þessar breytingar muni hafa áhrif til lækkunar neysluverðs um 0,2%. Það ætti að koma sér vel fyrir alla, (Gripið fram í.) óháð tekjum, og enn frekar þá sem bera verðtryggðar skuldir. Að gefnum þessum jákvæðu verðlagsáhrifum munu ráðstöfunartekjur heimilanna aukast.

Ég treysti verslunum vel til að skila þessum lækkunum. Ég virði þau sjónarmið sem hafa komið fram í umræðunni, ekki bara hér á hinu háa Alþingi af hv. þingmönnum og í máli hæstv. fjármálaráðherra, sem mælti fyrir frumvarpinu, heldur líka í fjölmiðlum. Ég virði sjónarmið bænda í umræðunni gagnvart áhrifum á innlenda matvælaframleiðslu. Ég get leyft mér að deila áhyggjum bókaútgefenda og áhyggjum af áhrifum á tekjulægstu hópana. Það er vissulega áhyggjuefni ef ferðakostnaður íþróttahreyfingarinnar mun aukast vegna þessara skattbreytinga. Það er viðfangsefni en við eigum jöfnunarsjóð, ferðasjóð, sem var komið á laggirnar 2007 og ég kom inn á í ræðu fyrr í dag. Það var aukið í þann sjóð fyrir ári síðan um 15 milljónir, úr 70 í 85 milljónir. Þar er dæmi sem hægt er að skoða sem mótvægisaðgerð ef það er áhugi og vilji fyrir því.

Það er verkefni hv. nefndar að skoða samhengi hlutanna, heildaráhrifin og tryggja það jafnræði sem ég er að ræða hér. Ég styð heils hugar stefnu ríkisstjórnarinnar í þeirri vegferð að einfalda skattkerfið og auka skilvirkni þess og lækka skattbyrði á einstaklinga og atvinnulíf.