144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:40]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir andsvar. Ég stend fyllilega við allt það sem ég sagði hér í ræðu áðan. Ég veit að hv. þingmaður er mjög athugull og hann heyrði vel þegar ég í lok ræðu minnar ræddi umburðarlyndi fyrir áhyggjum bænda af hækkun á innlenda matvælaframleiðslu. Ég nefndi áhyggjur bókaútgefenda. Þetta hefur allt komið fram í umræðunni í dag, fyrri hlutinn í andsvari hv. þingmanns sneri að þessu. Það er í fullu samræmi við stefnu okkar framsóknarmanna að ræða þessa hluti og ég geri ráð fyrir því að við munum greina gögn og fara yfir þessa þætti í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Þegar kemur að vangaveltum um það hvað þessi fyrirvari sem nefndur er, og vitnað í viðtal við hv. þm. Ásmund Einar Daðason, þá fyndist mér bara eðlilegra að hv. þingmaður ætti orðastað við hann um hans meiningu á því.

Hæstv. forsætisráðherra útskýrði þennan fyrirvara hins vegar mjög vel í sjónvarpsviðtali þar sem hann skýrði frá því að gengið væri út frá því í frumvarpinu að verðlag muni lækka og ráðstöfunartekjur aukast og kaupmáttur aukast. Það er sá fyrirvari sem talað er um.