144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð satt best að segja að játa að ég varð fyrir örlitlum vonbrigðum með gífuryrði, ég veit ekki hvort ég á að kalla það það, eða það að ætla mér, hvernig sem hv. þingmaður orðaði það, (ÖS: Hver er fyrirvarinn?) gera lítið úr orðum hv. þingmanna Framsóknarflokksins. Það var ekki mín meining. Ég svaraði bara fyrir það að ég væri að ræða það frumvarp sem væri til umræðu og ég reyndi að útskýra það eftir bestu getu hvernig hæstv. forsætisráðherra útskýrði þennan fyrirvara. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður vill fá fram meira í þessum vangaveltum um það hvað fyrirvari þýðir. Satt best að segja átta ég mig ekki á því.

Ég fór yfir þetta stefnumarkandi frumvarp, þá þætti sem snúa að því. Annars hef ég ekki meira um það að segja og ég get ekki staðið hér og tekið ábyrgð á orðum einstakra þingmanna um einstaka þætti frumvarps. Það hlýtur hv. þingmaður að taka sem gilt svar.