144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er hér um að ræða stjórnarfrumvörp. Þau eru borin fram af ráðherra í ríkisstjórninni og njóta stuðnings ríkisstjórnarinnar. Þegar frumvörpin eru síðan afgreidd úr þingflokki Framsóknarflokksins þá kemur fram í fréttaviðtali að flokkurinn í heild hafi verið með fyrirvara á málinu.

Því spyr ég: Er það rétt eftir haft að þingflokkurinn í heild hafi haft fyrirvara á málinu, þar með talið ráðherrarnir? Tóku þeir undir fyrirvara við afgreiðslu þingflokksins á stjórnarfrumvarpi? Var þessi fyrirvari bókaður á fundi þingflokksins því að það skiptir máli til að menn séu klárir á því hvað þarna hafi verið sagt og hver niðurstaðan var? Þá ætti væntanlega að vera einfalt fyrir hv. þingmann að svara því hver var fyrirvari þingflokks Framsóknarflokksins við þessi mál.