144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:48]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér enn og aftur. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir andsvarið. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að efnisleg umræða hefði farið fram um stefnu og innihald þessa frumvarps en enn og aftur er vikið að því sem hefur meira farið fram í fjölmiðlum og þar ekki vitnað í nein samtöl við mig persónulega. Ég held að ég fari með rétt mál að þessi fyrirvari hafi verið bókaður og í mínum skilningi nær hann til hinnar þinglegu meðferðar sem þetta mál fær eins og öll önnur mál.

Ég vitnaði hér í orð hæstv. forsætisráðherra vegna þess að hann útskýrði þá þætti sem fælust í þessum fyrirvara, þ.e., eins og kemur vel fram í frumvarpinu sem við ræðum, að frumvarpið leiði til lækkunar verðlags, bæti kjör í landinu og auki kaupmátt og ráðstöfunartekjur. Þetta er nokkurn veginn eins og þetta horfir við mér.