144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég get bætt við orð hv. þm. Willums Þórs Þórssonar þó að hann hafi ekki treyst sér til að bæta við þau, sem er eðlilegt því að það er auðvitað þannig að ef þingmenn Framsóknarflokksins láta Sjálfstæðisflokkinn svínbeygja sig til að hækka matarskatt á almenning í landinu um 5% þá er leitun í þingsögunni að jafn stórum hópi þingmanna og þingmönnum Framsóknarflokksins á þessu þingi sem hafa hlaupið jafn hratt frá loforðum sínum við kjósendur og sá hópur hefur þá gert á aðeins rétt liðlega ári. Þessi hópur fór um landið þvert og endilangt og lofaði fólki afnámi verðtryggingarinnar sem þeir hafa svikið og munu ekki efna á þessu kjörtímabili, punktur. Þeir lofuðu heimilum í landinu 300 milljörðum, 20% leiðréttingu á verðtryggðum skuldum sínum. Hvað komu þeir með til heimilanna í landinu? Þeir komu ekki með 20% leiðréttingu og enga 300 milljarða og þeir komu ekki með 15% leiðréttingu og enga 200 milljarða og þeir komu ekki með 10% leiðréttingu og 100 milljarða. Nei, en þeir drógu nokkuð að landi, þeir drógu 72 milljarða að landi í leiðréttingu fyrir heimilin í landinu. Það eru 70 þúsund heimili búin að sækja um þetta, fá um 1 milljón hvert að meðaltali á fjórum árum, 250 þús. kr. á ári. Það er 5% af skuldum þessara heimila sem þau fá leiðrétt, 5%.

Ef Framsóknarflokkurinn stendur að því á sama tíma á sama hausti og þessi 5% leiðrétting þó kemur til, ef þingmenn Framsóknarflokksins á því sama hausti ætla að hækka mat um 5% hjá þessum sömu heimilum þá hafa þeir náttúrlega haft þau heimili að fíflum. Það er bara þannig að húsnæðisliðurinn og matarliðurinn í rekstri heimilis eru álíka stórir. Þetta er sjötta hver króna sem fólk eyðir, þetta er í kringum 15%, húsnæði annars vegar og maturinn hins vegar. Og ef hinar stórkostlegu kjarabætur og hinar miklu leiðréttingar sem þingmenn Framsóknarflokksins fóru með um landið fyrir síðustu kosningar og öll þau fyrirheit og allar þær vonir og væntingar sem þessir þingmenn leyfðu sér að vekja hjá fólki í erfiðleikum, hjá fólki sem á erfitt með að ná saman endum, ef efndirnar við þetta fólk eru að lækka húsnæðisliðinn um 5% en hækka svo matarliðinn um 5% eru það náttúrlega engar efndir, einfaldlega engar efndir. Augljóslega ekki á verðtryggingunni, enda vissu þeir það sennilega fyrir fram að þeir mundu aldrei efna það loforð, en þá líka á hinu og vaxtabæturnar í þokkabót umtalsvert lægri en þær voru á síðasta kjörtímabili, sennilega einum 10 milljörðum sem er álíka fjárhæð og þeir eru núna að hækka skattinn á lífsnauðsynjum til almennings um. Það er auðvitað ekki nema von að það séu þá í þingflokki Framsóknarflokksins meiri kjarkmenn en hv. þm. Willum Þór Þórsson, þingmenn sem hafa haft dögun í sér til að reisa hér við rönd og lýsa því yfir, eins og raunar allir vita sem hafa fylgst með pólitískri umræðu, að það að hækka matarverð með þessum hætti sé ekki í anda stefnu Framsóknarflokksins sem hefur ítrekað talað um mikilvægi þess að halda matarverði lágu og talað fyrir sjónarmiðum eins og þeim sem formaður Bændasamtakanna talar nú fyrir, sem er vanur að tala fyrir stefnu Framsóknarflokksins í þessum sal en þarf nú að standa utan við salinn og mótmæla áformum um hækkun á matarskattinum, eðlilega vegna þess að það er sannarlega ekki sá Framsóknarflokkur sem formaður Bændasamtakanna hefur lifað og hrærst í sem hefur uppi slíkar fyrirætlanir.

Það er sannarlega ástæða til að vona að þeir þingmenn Framsóknarflokksins sem hafa haft kjark til að standa með heimilunum í landinu í þessu máli og lýst sig andsnúna hækkunum á matarskatti og sömuleiðis þeir þingmenn sem hafa lýst sig andsnúna því að falla frá sykurskattinum, þeir heykist ekki á því og láti ekki kúga sig í málinu af hálfu samstarfsflokksins. Það er einfaldlega þannig að þetta er mál sem skiptir allar fjölskyldur í landinu miklu máli en sérstaklega þær fjölskyldur sem Framsóknarflokkurinn og þingmenn hans vöktu hjá vonir og væntingar um að fengju að njóta betri hags þegar þessir nefndu þingmenn Framsóknarflokksins væru komnir í stjórnarmeirihluta en þeir hefðu notið á síðasta kjörtímabili.

Það er ástæða til að minna á að þetta er ekki sjónarmið sem við í Samfylkingunni erum að flagga hér í stjórnarandstöðu, nei. Þetta eru sjónarmið sem við höfum staðið fyrir í ríkisstjórn og líka þegar við vorum með heiminn á herðum ásamt með samstarfsflokki okkar, VG. Við tókumst á við stjarnfræðilegan halla á ríkissjóði, langt á annað hundrað milljarða í halla, 500 millj. kr. í taprekstri á hverjum einasta virkum degi vikunnar og samt hækkuðum við ekki virðisaukaskatt á lífsnauðsynjar úr 7% og upp úr. Þrátt fyrir allar þær fjölmörgu erfiðu ákvarðanir sem hér þurfti að taka í ríkisfjármálum alla stjórnartíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, í fjögur ár og rúmlega það, þó að taka hefði þurft margar erfiðar ákvarðanir, og þar sennilega hvað erfiðast að innleiða aftur vörugjöldin sem við sjálf í Samfylkingunni höfðum knúið á um á kjörtímabilinu 2007–2009 að yrðu felld niður, var aldrei farið í sjö prósentin. Þegar við lögðum af stað í þann leiðangur vissum við ekki hvort við gætum staðið þá vakt til enda. Við vissum aldrei hversu mikið við þyrftum á endanum að skera niður og hækka skatta til að ná endum saman eins og okkur tókst á síðasta árið, árið 2013. Það var alveg ljóst að 7% skatt, lágan skatt á lífsnauðsynjar, matvæli, húshitun, rafmagn, bækur, ætluðum við að standa vörð um í lengstu lög. Það er ein af ástæðunum fyrir því að við tökum nokkurn þátt í þessari umræðu, þingmenn Samfylkingarinnar, af því að auðvitað hitnar mann í hamsi yfir því að á erfiðustu tímum Íslandssögunnar í ríkisfjármálum var þessum lífsnauðsynjum heimilanna hlíft og virðisaukaskattsprósentunni haldið í 7% en þegar hér flykkjast inn nýir þingmenn, sem létu kjósa sig út á óheyrileg loforð um það sem þeir ætluðu að gera fyrir heimilin í landinu og einkum þau sem illa væru sett, þegar þeir taka við búi þar sem landsframleiðslan hefur vaxið ár frá ári og áætlun okkar í ríkisfjármálum með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er að ganga fram og skila verulegum tekjum núna umfram gjöld, fyrst í ár, og hefði gert það enn frekar á næsta ári ef menn væru ekki að fella niður skatta af útgerðarmönnum og efnuðustu heimilunum í landinu, skuli þessir nýju þingmenn, við góðar aðstæður í ríkisfjármálum, við blómlegan vöxt í efnahagsstarfseminni ár frá ári núna í mörg ár og enn næstu árin ef marka má spár greiningaraðila, koma hér inn og leggja til að hækka skatt á lífsnauðsynjar úr 7% í 12.

Það hefur kannski verið óþarfa kurteisi að kalla það 5% hækkun því að það er 71% hækkun á skatti á matvörum. — Það er 71% hækkun á skatti á matvöru, virðulegur forseti. — Og það þýðir ekkert fyrir þessa hv. þingmenn að koma hér og segja að helmingslækkun á skatti á gosdrykki sé mótvægisaðgerð, fyrir utan hvað það er óskynsamlegt eins og hv. þm. Haraldur Einarsson hefur svo ágætlega bent á. Menn geta alveg talað sig hása um það að efnalítil heimili eyði hlutfallslega jafn miklu í mat og efnamikil heimili. Það er bara ekki rétt. Það veit það hver maður og sér í hendi sér að það er tómt mál að tala um að sá sem hefur til ráðstöfunar á mánuði 150 þús. kr. borgi rétt liðlega 20 þús. kr. í mat. Þannig er það bara ekki. Sá borgar einfaldlega verulega hærri hluta tekna sinna í mat en þeir sem háar hafa tekjurnar. Þetta hefur Alþýðusambandið líka sýnt ágætlega fram á. Það er auðvitað ástæða til þess, kannski ekki fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa svo sem ekki dregið dul á það að þeir fara hér með umboð hátekju- og eignafólksins í landinu en fyrir þingmenn Framsóknarflokksins, að hlusta á hvert stéttarfélagið á fætur öðru, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur verið óþreytandi við að draga fram í umræðunni í dag. Meira að segja Verslunarmannafélag Reykjavíkur sem þó ætti að sjá ákveðna jákvæða hluti í tengslum við afnám vörugjalda, sem ég held að væri út af fyrir sig framfaraskref ef það væri ekki ætlunin að fjármagna það framfaraskref með því að hækka lífsnauðsynjar á almenning.

Félag eldri borgara skorar á þessa þingmenn að falla frá því að hækka virðisaukaskattsprósentuna úr 7 í 12%. Fóru ekki þessir þingmenn Framsóknarflokksins hér um og boðuðu það að eldri borgarar mundu njóta betri kjara og það yrði hlustað á þá, eða ætla hv. þingmenn ekkert að hlusta á Félag eldri borgara í þessu máli?

Eða Bændasamtökin. Voru það ekki einmitt þingmenn Framsóknarflokksins sem fóru hér um landið og gáfu sig út fyrir að vera sérstakir talsmenn bændastéttarinnar í landinu og að þeir mundu beita sér fyrir áherslum í þinginu sem væru hagfelldar bændum og innlendri framleiðslu á landbúnaðarvörum? Það er ástæða til þess fyrir alla þá sem láta sér annt um þessi málefni að leggja að þingmönnum Framsóknarflokksins að standa nú á stefnu sinni og láta ekki Sjálfstæðisflokkinn beygja sig til þess að hirða í einu vetfangi með hækkun á sköttum á mat allan ávinninginn sem þessir sömu þingmenn hafa barist fyrir í skuldaleiðréttingunni. Tekjurnar af hækkuninni á lægra þrepinu úr 7 í 12% eru 11 milljarðar á ári, þar af kannski tæplega 10 milljarðar sem lenda á lífsnauðsynjum heimilanna, þegar ferðaþjónustuhlutinn hefur verið dreginn frá. Þetta eru rétt um 100 þús. kr. fyrir hvert heimili í landinu, 100 þús. kr. Þetta fer náttúrlega langt með það að fjármagna þessa 18 milljarða sem á að leggja í skuldaleiðréttingu á ári. Mismunurinn er fjármagnaður með niðurskurði á vaxtabótum. En gallinn er sá að skuldaleiðréttingin verður aðeins í fjögur ár. Þessi 10 milljarða hækkun, 100 þús. kr. hækkun á hvert heimili á ári, verður um alla framtíð. Þess vegna eru heimilin í raun og veru verr sett eftir þessar hundakúnstir Framsóknarflokksins, ef skuldirnar eru lækkaðar um 5% með aðgerð til fjögurra ára en maturinn hækkaður varanlega.