144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er oft nefnt í þessari umræðu hér að láglaunafólkið sem er með um 200 þús. kr. komi svona og svona út úr þessu máli. Því er stundum haldið fram að það muni fá á sig mun meiri hækkun en þeir sem eru með hærri tekjurnar og að það verji hærra hlutfalli tekna sinna í matarinnkaup en aðrir. Gefum okkur að þetta sé rétt, sem ég tel reyndar að sé ekki, að 20% af ráðstöfunartekjunum fari í matarinnkaup, 40 þús. kr. á mánuði. Þá er það samkvæmt nýjustu útreikningum 1 þús. kr. á mánuði í hækkun. 5 þús. kr. koma hins vegar til þeirra sem eru með tvö börn á framfæri á móti á mánuði, 5 þús. kr. á hverjum einasta mánuði allt árið, 60 þús. kr. yfir árið í heild. Svo kemur lækkunin á efra þrepinu. Svo kemur niðurfelling annarra vörugjalda.

Kjósi þingmaðurinn að horfa á málið brotakennt þá gerir hann það, en með því að koma í veg fyrir að þær breytingar nái fram að ganga sem við mælum hér fyrir þá er hann að berjast gegn hag heimilanna og það veit hann best sjálfur.