144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er til efs að það sé eitthvað sérstaklega til bóta. Það er að minnsta kosti engin einföldun í því fólgin að fá fram tvö þrep, ekkert sem breytir því. Ég vek athygli hv. þingmanns á því að til að mynda Hollendingar, sem eru löngu heimskunnir fyrir að halda ákaflega vel á sínum ríkisfjármálum, hafa tvö þrep sem eru 4% annars vegar, þ.e. umtalsvert lægra en okkar, og 19% hins vegar og hefur gengið býsna vel að reka sín ríkisfjármál. En ég vil hins vegar árétta að þó ég hafi þessa afstöðu til vörugjaldanna og við í Samfylkingunni þá á það ekki við um sykurskattinn. Þar er ég eindregið sammála íþróttamanninum í þingflokki Framsóknarflokksins, Haraldi Einarssyni, og vona að hv. þm. Willum Þór Þórsson sé okkur sammála um að það sé glapræði að fella niður skatta á óhollustu og fáránlegt að hækka skatta á fisk um helming um leið og menn lækka skatta á gosi um helming. Það getur vel verið að menn geti reiknað út að það komi út á núlli en það er samt heimskulegt.