144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eitthvað hafa stjórnarliðar undirbúið ræður sínar hér í kvöld fullsnemma í dag því að ég hef ítrekað, bæði í ræðu minni og fyrri andsvörum, glaðst yfir afnámi vörugjalda. Ég hef bara sagt að mér finnist að ríkt fólk eigi að borga það en ekki almenningur í landinu með verulegum hækkunum á lífsnauðsynjum. Hv. þingmanni til upplýsingar þá hef ég komið á heimili þar sem ekki er ísskápur en það er auðvitað orðið býsna fátítt.

Hitt get ég sagt hv. þingmanni að ef hann svipast um á þeim heimilum sem hann kemur inn á þá kemst hann ábyggilega að raun um að á efnaminni heimilum vegur matur talsvert þyngra í því sem þar er en ýmiss konar tækjadót. Á efnameiri heimilum vegur dýrt tækjadót umtalsvert þyngra en maturinn gerir á hinum efnaminni heimilum. Þess vegna kemur það að hækka skatt á lífsnauðsynjar, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur bent svo ágætlega á og er löngu sannað, verst út fyrir þá sem eru tekjulægstir.

Ég hvet hv. þm. Pétur H. Blöndal til að fá hæstv. forsætisráðherra Sigmund Davíð Gunnlaugsson til að leiða sig í gegnum þær fjölmörgu sannanir sem fyrir þessu eru.