144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á dauða mínum átti ég von en ekki því að hv. þm. Pétur H. Blöndal hvetti mig til að gleðjast yfir þeim skattahækkunum sem hér eru bornar á borð á lífsnauðsynjar til almennings. (Gripið fram í.)

Það er rétt hjá hv. þingmanni að vissulega verður að líta á tillögurnar í heild sinni. Í heild sinni eru tillögurnar þannig að þar eru ágætisskref í að lækka efra þrepið, í því að fella niður vörugjöldin (PHB: Flott.) og fella niður auðlegðarskatt sem er ómögulegt skref. Það eru einir 10 milljarðar og lækka veiðigjöldin um svipaða fjárhæð. Og til að eiga fyrir skattalækkuninni til útgerðarinnar og til ríka fólksins þá er verið að hækka skattinn á mat úr 7% í 12% eða um 10 milljarða. (PHB: Þú ert rökþrota.) Það er hið stóra samhengi hlutanna og það er að skoða málið í heild sinni hv. þm. Pétur H. Blöndal.