144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:33]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Þessi fyrirvari, svo ég víki fyrst að því, var ekki orðaður skýrar en þetta eða tilefnið sérstaklega. Menn geta haft ýmsar ástæður fyrir því að þeir óski eftir því að slíkur fyrirvari sé settur, hvort það er sykurskattur, matarskattur eða eitthvað annað. Menn vilja hafa tíma til að ganga úr skugga um að yfirlýst markmið frumvarpsins, þ.e. lækkun verðlags, lækkun skattbyrði allra hópa og einföldunin, náist í raun fram. Það gafst ekki nægur tími fyrir okkur þingmennina hvern um sig, ég reikna með að ráðherrarnir hafi haft rýmri tíma, en við höfðum það ekki sjálfir af því að þetta þurfti að koma fram á fyrsta þingdegi. Það er í raun og veru bara jákvætt að þetta kom allt fram samtímis, bæði útgjaldaliðurinn og tekjuliðurinn, það er gott.

Ég legg fyrir mitt leyti aðaláherslu á þetta. Ég set það ekki fyrir mig hvort skattprósentur séu hærri eða lægri í sjálfu sér, aðalatriðið er að kjör allra hópa batni. Ef það næst fram þá er sá þingmaður sem hér stendur sáttur, en ég hengi mig ekki í einstök atriði. Hvað varðar sykurskattinn þá greinir menn mjög á um það hvort hann hafi í raun skilað því sem menn vildu ná fram, þ.e. einhvers konar neyslustýringu frá sykri sem núna kemur í ljós að er mjög óhollur.

Ég hef persónulega trú á því, ég get alveg sagt mínar hugsanir um það, að neysluskattar geti virkað. Við höfum slíka skatta á tóbaki og áfengi og í einlægni þá finnst mér alveg ástæða til að skoða þetta í ljósi þeirra upplýsinga sem við erum að fá um skaðsemi sykurs. Það getur vel verið að í meðförum nefndarinnar finnum við einhverja leið til að koma því þannig fyrir án þess að hafa stórvægileg áhrif á fjárlagafrumvarpið í heild sinni. Það er alveg sjálfsagt að skoða það.