144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar þá til að spyrja hv. þm. Frosta Sigurjónsson hvort það sé ekki alveg öruggt að ég og hann séum enn þá fullkomlega sammála formanni Framsóknarflokksins um að það sé margsannað að hækkun matarskatts komi langverst niður á þeim tekjulægstu. Hv. þingmaður háði heila kosningabaráttu, mjög sigursæla, vegna þess að hann lýsti umhyggju fyrir þeim sem höfðu farið mjög illa út úr lífsbaráttu undangenginna ára og ég vænti þess að hækkun matarskatts skipti hann máli. Sú var tíðin að það voru margir öflugir stjórnmálamenn í Framsóknarflokknum sem börðust mjög harkalega fyrir kjörum þeirra tekjulægstu.

Ég er algerlega sammála því sem formaður Framsóknarflokksins sagði á sínum tíma. Mér hefur stundum virst að hann sé ekki alltaf sammála sjálfum sér eins og hann birtist á þeim tíma. Hitt liggur alveg ljóst fyrir að hann hefur orðið viðskila við þingflokkinn. Formaður Framsóknarflokksins samþykkti þetta frumvarp undanbragðalaust í ríkisstjórn ásamt þremur öðrum ráðherrum Framsóknarflokksins. Það mætti kannski draga þá ályktun af því að það væri svolítið meiri hryggur í þingflokknum, hinum almennu þingmönnum en ráðherrunum því mér virðist sem hæstv. fjármálaráðherra fari afskaplega létt með að beygja þá við ríkisstjórnarborðið.

Ég gleðst yfir því að hv. þingmaður vill skoða málið. Eitt var ákaflega mikilvægt sem hann sagði fyrir framhald þessa máls og skýrði forsendur sínar fyrir stuðningi við það. Hann sagði: Allir hópar verða að koma betur út eða jafn góðir. Það er mjög virðingarverð afstaða og ég mun hjálpa hv. þingmanni áfram í baráttunni með því að rifja þetta hugsanlega töluvert reglulega upp meðan málið er til umræðu í þinginu. En ég vænti þess að hann svari mér um það hvort við séum ekki enn þá jafn elskir að yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra í dag eftir þessa umræðu.