144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni skýra ræðu hér og ágæt andsvör í samtali sínu við hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Það er orðið nokkuð skýrt hvernig málið liggur. Í ræðu hv. þm. Willums Þórs Þórssonar kom fram að formlegur fyrirvari var gerður á þingflokksfundi Framsóknarflokksins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur gert atlögu að því að lýsa þeim fyrirvörum og lýst þeirri afstöðu sinni — og ég skil það þannig að það sé afstaða þingflokks Framsóknarflokksins — að allir hópar þurfi að koma betur út úr þessum aðgerðum. Það hlýtur að þýða líka að þeir þingmenn sem þann fyrirvara gera styðja ekki málið ef ljóst verður við skoðun þess að hópar verði út undan. Ef ekkert annað verður gert til mótvægis en það sem fyrir liggur eða ef fram kemur að það dugi ekki, þá styðji þingflokkur Framsóknarflokksins ekki málið.

Ég bið hv. þingmann að leiðrétta mig ef þetta er ekki réttur skilningur, að fyrirvarinn snúist um að nú þurfi að fara í mjög rækilega vinnu í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem það verður gegnumlýst, ef svo má að orði komast, að allir hópar komi betur út eftir þessa breytingu en fyrir hana. Ef það markmið náist ekki sé ekki að vænta stuðnings frá þingflokki Framsóknarflokksins.