144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega ærið verkefni fram undan hjá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni að leiða þetta mál til lykta þar sem það er galopið. Tekjuöflunarfrumvarpið er galopið þar sem þarf að fara yfir það lið fyrir lið hvort hagsmunir allra hópa séu tryggir. Ég held og er raunar viss um að hv. þingmaður getur treyst því að honum og hans félögum í ríkisstjórnarflokkunum verður haldið við efnið í því að uppfylla þessi fögru fyrirheit.

Ég óska honum velfarnaðar í þessu stóra verkefni en árétta að það er í sögulegu samhengi og pólitísku samhengi afar óvenjulegt að fjárlagafrumvarpið annars vegar og hins vegar tekjuöflunarfrumvarpið sé galopið við lok 1. umr., en það eru sannarlega pólitísk tíðindi. Það væri ánægjulegt fyrir okkur sem aðhyllumst félagslegt réttlæti og jöfnuð ef það leyndist hrygglengja í Framsóknarflokknum sem gerði það að verkum að flokkurinn stæði við fyrirvara sína og héldi Sjálfstæðisflokknum á mottunni.