144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa upplýst að þingflokkurinn í heild, væntanlega hæstv. ráðherrar þar með taldir, hafi sett almennan fyrirvara við frumvarp hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um virðisaukaskatt o.fl.

Hv. þm. Frosti Sigurjónsson upplýsti það í ræðu sinni seint í gærkvöldi að fyrirvarinn gengi út á mótvægisaðgerðir við hærri matarskatti og tryggja þyrfti að samfara breytingunni batni kjör allra tekjuhópa og verðlag lækki. Þetta finnst mér góðir fyrirvarar og skiljanlegir þó að það hljóti vissulega að vera óvanalegt að annar stjórnarþingflokkurinn í heild sinni geri fyrirvara við tekjufrumvarp fjárlaga.

Mér finnst augljóst að mótvægisaðgerðirnar duga alls ekki og að sá hluti sem lýtur að lækkun vörugjalda sykraðra matvæla sé beinlínis óskynsamlegur. Í bótakerfinu eru einungis kynntar til leiks mótvægisaðgerðir í formi barnabóta. Það er svo lág upphæð að hún nær ekki einu sinni raungildi barnabóta í fjárlögum 2013. Það held ég að hvorki barnafólk né Framsóknarflokkurinn geti sætt sig við, hvað þá heldur þeir sem ná ekki endum saman nú þegar en ekki eiga börn og fá því engar bætur.

Ég skora á hv. þingmenn Framsóknarflokksins að taka þátt í umræðunni hér í dag, sitja ekki hjá en taka rökræðuna. Til þess að enginn efist um útreikninga á raungildi barnabóta finnst mér mikilvægt að hér komi skýrt fram að í fjárlögum 2013 voru barnabætur 10.762 milljónir. Hæstv. fjármálaráðherra segir að árið 2015 verði 11 milljörðum varið til barnabóta. Það er hækkun um 2,2% frá fjárlögum 2013 en ef miðað hefði verið við breytingu á neysluvísitölu frá 1. janúar 2013 til 1. ágúst 2014 ætti hækkunin að vera 4,9%, bara til þess að þessi hækkun (Forseti hringir.) upp í 11 milljarða haldi verðgildi ársins 2013 á barnabótum.