144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ferðamannastraumur til landsins hefur aukist gífurlega og það stefnir í metaukningu á næstu árum. Aukning ferðamannafjölda hefur verið um 20% á milli ára. Þetta eru vissulega ánægjuleg tíðindi en þau vekja líka ákveðinn ótta um að innviðir landsins ráði ekki við allan þennan ferðamannastraum til landsins.

Við þekkjum að það er verið að skera niður fjármagn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, til uppbyggingar þar, og það er ekki enn komin nein leið til að fjármagna uppbyggingu innviða samfélagsins til að taka á móti þeim gífurlega fjölda ferðamanna sem virðist vilja heimsækja okkur í framtíðinni.

Vegakerfið er stór þáttur í því að taka á móti ferðamönnum allt árið um kring í öllum landshlutum. Ferðamannastaðirnir eru ekki eingöngu Bláa lónið, Gullfoss og Geysir. Það hefur komið í ljós að áhugi erlendra ferðamanna er gífurlegur á því að koma til staða vítt og breitt um landið. Í því sambandi vil ég nefna að samtökin World Responsible Tourism hafa tilnefnt þrjá staði á Íslandi til verðlauna. Þeir þrír staðir eru litli heimabærinn minn, Suðureyri, Snæfellsnes og Reykjavík. Það vekur athygli á því að gera þarf átak í uppbyggingu vegakerfisins í viðhaldi og í snjómokstri. Það vekur líka athygli að ríkisstjórnin velur að skera niður í vegagerð um 2,6 milljarða í þessum fjárlögum. Það vantar 700 millj. kr. til þess að fjármagna vetrarþjónustuna. Allt eru þetta þættir sem skipta máli til þess að ferðamenn komist vítt og breitt um landið allt árið um kring. (Forseti hringir.)

Hvar eru framsóknarmenn í þessari umræðu? (Forseti hringir.) Hvar er landsbyggðarhjartað í framsóknarmönnum? (Gripið fram í: Heyr, heyr!)