144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Markmiðið með þessu frumvarpi á meðal annars að vera að auka ráðstöfunartekjur heimilanna. Það kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra við 1. umr. í gær. Það kom líka fram hjá hæstv. ráðherra að skilvirkni skattkerfisins og virðisaukaskattsins hefur með það að gera að bilið sé styttra á milli þrepa, sem verið er að breyta, og minna sé um undanþágur.

Hæstv. fjármálaráðherra segist vilja sterkt neysluskattakerfi, einfalt, sanngjarnt, skýrt og með sem fæstar undanþágur, gegnsætt og að það mismuni ekki. Hann talar um hóflega skatta, að þannig sjái hann fyrir sér að við eigum að byggja upp skattkerfið. Í andsvari við hv. þm. Kristján L. Möller svarar hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson á þann hátt að það sé ekkert heilagt hvar draga eigi línur varðandi þessi þrep.

Í andsvari við hv. þm. Oddnýju Harðardóttur er talað um tekjuöflunarkerfi sem væri hægt að nota til að ná fram tekjujöfnunaráhrifum. Það er ekki eina leiðin til að ná fram tekjujöfnunaráhrifum að fara í þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin er að fara í.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talar í ræðu um prinsipp og vitnar þá í orð hæstv. ráðherra, að við skulum ræða þetta á prinsippforsendum. Össur vill verja tekjulægstu hópana. Eins og við höfum heyrt í ræðum hv. þingmanna Framsóknarflokksins er það nokkuð sem þeir virðast vilja líka og þá sérstaklega í umræðu um matarskattinn.

Varðandi matarskattinn virðast stjórnarliðar, alla vega samkvæmt þessu frumvarpi og samkvæmt umræðunni hér í gær, nálgast málið út frá útgjöldum heimilanna meðan stjórnarandstaðan talar um tekjur heimilanna. Í umræðunni verður þetta svolítið ruglandi. Annar aðilinn talar um útgjöld og hinn um tekjur. Stjórnarliðar geta talað um útgjöld heimilanna, að það virðist vera svipað í öllum tekjuhópum, til matar, um 15%. Þetta er örugglega rétt. En ef við horfum á tekjuhliðina og hlutfall af tekjum verja tekjulægstu hóparnir 20% af tekjum sínum í mat en tekjuhæstu verja 10%.

Hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson sagði í 1. umr. um fjárlögin að það væri svo sem sjálfsagt að ræða mótvægisaðgerðir, þeir væru með sínar mótvægisaðgerðir en það væri sjálfsagt að ræða aðrar mótvægisaðgerðir og fara ofan í saumana á því. Það sem mig langar að ræða eru aðrar leiðir til mótvægisaðgerða. Í þeirri umræðu, sem sagt í fyrradag, lok þess dags, nefndi ég möguleika þess að afnema virðisaukaskatt af matvælum og hækka neðra þrepið sem því nemur. Það væri ein mótvægisaðgerð, að virðisaukaskattur af matvælum hyrfi sem mundi þýða að hækkun upp á 2,5% á matvælum, sem hæstv. ráðherra hefur sagt að eigi sér stað með þessum frumvörpum, mundi ekki eiga sér stað, um yrði að ræða lækkun á matvælaverði en hækkun yrði á einhverjum öðrum vörum sem því nemur. Jú, það yrði til undanþága, sem minnkar kannski skilvirkni kerfisins, en á móti kemur að þrepin mundu nálgast hvort annað sem mundi auka skilvirkni. Nákvæmlega hvort hefur meiri skilvirkniaukningu í för með sér veit ég ekki en þetta var ein tillaga.

Hæstv. ráðherra var ekki hlynntur þeirri tillögu, fannst hún ekki góð.

Við getum rætt aðrar tillögur og vonandi farið ofan í saumana á þeim, eins og hæstv. ráðherra hefur boðið upp á.

Önnur tillaga byggir á því að lækka matartolla. Ef við lækkum matartolla sem nemur því að þessi 2,5 hækkun á matvælaverði eigi sér ekki stað, það var ein tillaga, hverjir eru þá hlunnfarnir? Jú, matartollar, það er skýrsla sem forsætisráðherra bað um 2006 — matvælaverðsnefnd sem hann skipaði gaf út skýrslu og þar er talað um að greina megi fjórar meginástæður fyrir álagningu tolla á innflutt matvæli.

1. Vernd fyrir innlenda búvöruframleiðslu. — Sú vernd minnkar því eitthvað. Er hægt að finna mótvægisaðgerðir við því? Já, það væri hægt. Við skulum tala um það.

2. Vernd fyrir aðra innlenda framleiðslu, svo sem sælgætisgerð og fóðurblöndur.

3. Neyslustýring, þ.e. að tollum sé beitt til að draga úr eftirspurn á vörum sem taldar eru óhollar eða óæskilegar.

4. Tekjuöflun ríkissjóðs. — Við getum bara leyst tekjuöflunina strax. Það kemur líka fram í skýrslunni að ef við lækkum matartollana, það sem það kostar ríkissjóð á þessum tíma — þetta er 2006, matartollarnir eru þá í kringum 1 milljarð, í dag eru þeir í kringum 2 milljarða. Ef við hefðum helmingað þá á þeim tíma hefði það líklega kostað 145 milljónir. Aftur á móti skila 900 milljónir sér til baka vegna aukinna umsvifa í viðskiptalífinu sem nást þá í gegnum aðra skatta.

Miklu meira skilar sér því til baka. Hér erum við klárlega að tala um miklu skilvirkara skattkerfi. Það skilar sér miklu meira til baka. Ókei, en einhverjir verða af vernd? Og þá getum við fært okkur yfir í þessa vernd við innlenda búvöruframleiðslu, mótvægisaðgerðir fyrir þá. Þeir gætu fengið mótvægisaðgerðir í því formi að það sem skilar sér vegna lækkunar á tollum, þeir mundu fá sama ígildi. Það sem mundi skila sér til ríkissjóðs, þeir mundu fá það. Og það sem út af stendur? Þá er spurningin hvar við þyrftum að ná í það. Væri kannski ekki hægt að skera einhverja smáfitu af bákninu, af ríkinu, af gæluverkefnum, einhvers staðar, finna það sem væri minna virði en það að hækka matarverð á fjölskyldur í landinu? Væri ekki hægt að finna það einhvers staðar, skera það niður þar, taka það sem fæst aukalega í ríkissjóð sexfalt við það að lækka tollana, taka þetta saman og færa búvöruframleiðendum það sem uppbót við það að verndin sem þeir njóta og ígildi verðmæta sem þeir fá vegna innflutningstollanna á matvæli, að þeir beri ekki skaða af þessu? Hvað erum við í raun að horfa á, hverjar eru afleiðingarnar af þessu?

Ef það er tryggt að heildarígildi stuðnings við búvöruframleiðendur minnki ekki ætti þetta ekki að vera hugmyndafræðilega andstætt stefnu Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins eða stefnu ríkisstjórnarinnar. Það kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum, 1. efnisgrein, þar segir, með leyfi forseta:

„Með myndun ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefst ný sókn í þágu lands og þjóðar. Leiðarljós ríkisstjórnarinnar er bættur hagur heimilanna í landinu og efling atvinnulífs með aukinni verðmætasköpun í þágu almannahags.“

Þetta styður enn frekar við markmið ríkisstjórnarinnar með þessum skattbreytingum, þ.e. að auka ráðstöfunartekjur heimilanna. Þetta mun auka þær sem því nemur að það verður ekki hækkun á matvælaverði um 2,5%. Það eykur ráðstöfunartekjur heimilanna.

Þessi mótvægisaðgerð skilur ekki ýmsa hópa í samfélaginu eftir ofan í götum. Öll þessi göt sem eru í bótakerfinu — með þessu frumvarpi er lagt til að mótvægisaðgerðin sé meðal annars aukabætur til barnafjölskyldna um 11% ef ég man rétt, eitthvað í kringum það, þannig að þær fá 0,5% kaupmáttaraukningu út úr þessu öllu saman og verða ekki fyrir skaða af 2,5% hækkun á matvælaverði.

Eins og komið hefur skýrt fram í þessari umræðu eru barnafjölskyldur sem fá barnabætur ekki einu aðilarnir sem minna hafa og munu þurfa að bera meiri þunga af þessu; hjá öðrum mun kaupmátturinnn ekki aukast því að þeir fá ekki þessi 11%. Hvað með öryrkja, langveika, foreldra sem eru ekki með börnin skráð á sínu lögheimili? Við þekkjum það vandamál á Íslandi. Ef við ætlum að fara í þessar mótvægisaðgerðir er fullt af aðilum í samfélaginu sem hvað minnst mega sín sem fá ekki leiðréttinguna. Þeir falla ofan í glufu.

Mótvægisaðgerðin sem ég er að leggja til, sem ég vona að verði virkilega skoðuð og farið ofan í saumana á, þýðir að við reynum að finna einhverja fitu á bákninu sem hægt er að skera af. Þetta eru ekki það háar upphæðir, við gerum kerfið skilvirkara og við skilum því að matarskatturinn hækki ekki, þ.e. matvælaverð. Við lækkum tolla.

Hvað gerist meira? Jú, við lækkum tolla á matvæli meira en ígildi innflutningsverndar til framleiðenda. Þeir hljóta ekki skaða af þessu. Þetta einfaldar því og eykur skilvirkni skattkerfisins. Þetta eflir atvinnulífið með auknum umsvifum í verslun, það er alveg ljóst. Aukin umsvif í verslun, kemur skýrt fram að það verður sex sinnum meiri skattur sem kemur til ríkisins en tollarnir skiluðu vegna aukinna umsvifa í viðskiptalífinu.

Þetta sker, eins og ég hef nefnt, fitu af bákninu í stað þess að minnka ígildi stuðnings ríkisins við búvöruframleiðslu.

Það eina sem þarf að draga úr eru úthlutanir skattfjár til alls konar pólitískra gæluverkefna og einhverra hluta sem eru minna virði en það að hækka matvælaverð um 2,5% í landinu.

Spurningin hlýtur að vera: Ef hægt er að skera þessa fitu og finna þessa fitu, ef við getum farið ofan í saumana á því, eins og hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson sagði að hann væri tilbúinn að gera, og fundið þessi verkefni sem má skera niður og eru minna mikilvæg en matarskattur á fjölskyldurnar, er það ekki eitthvað sem við ættum að gera?

Kerfið er feitt og fólk er svangt. Má ekki skoða þessar mótvægisaðgerðir?