144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að koma hér upp örstutt í lok þessarar umræðu til að fagna þessu frumvarpi, ég er ánægð með að sjá þetta líta dagsins ljós. Ég er talsmaður einfalds skattkerfis og ég er sérstaklega ánægð með þann hluta frumvarpsins sem snýr að því að nema úr gildi vörugjöld.

Það hefur borið við hér í umræðunni að menn hafa talað eins og þessi vörugjöld leggist eingöngu á vörur sem ríkt fólk kaupir og þetta komi engum öðrum til góða. Það er einfaldlega rangt. Gerber-barnamatur er ekki lúxusvara á heimilum ríks fólks, ég held það sé almennt þannig að fólk kaupi ýmsar vörur á þessum lista sem bera vörugjöld. Glútenlaus pítubrauð bera til dæmis vörugjöld sem og glútenlausar múffur sem ýmsir sem eru til dæmis haldnir ofnæmissjúkdómum eða eru í einhvers konar líkamsræktarátaki kaupa í venjulegum stórmörkuðum. Þetta eru vörur sem skipta máli og það er einfaldlega rétt að halda því til haga í umræðunni að hér er um að ræða miklar hagsbætur í formi þess að vörugjöldin séu lækkuð fyrir mjög mörg ef ekki flestöll íslensk heimili.

Ég fagna frumvarpinu og hlakka svo sannarlega til að sjá það verða að lögum hér frá Alþingi.