144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Ég vildi aðeins segja um það frumvarp sem hér er undir og þær breytingar sem verið er að gera á skattkerfinu að ég styð hæstv. fjármálaráðherra í því að reyna að einfalda kerfið. Ég styð hann líka í því að reyna að breikka andlag virðisaukaskattsins. Það liggur algjörlega á tæru, það hef ég alltaf sagt.

Ég dreg línuna við eitt. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær: Ræðum þetta á grundvelli prinsippa. Mitt prinsipp er óvart tekjulægstu hóparnir. Það liggur alveg ljóst fyrir, eins og hv. þm. Karl Garðarsson hefur undirstrikað margsinnis, bæði í ræðu og í riti, að þeir eru ekki varðir með nægilega tryggum hætti.

Þá er rétt að geta þess að ég er sömuleiðis ánægður með að verið er að afnema vörugjöld. Því hef ég fylgt og mín hreyfing um áraraðir þannig að við fögnum því. Það er hins vegar með engu móti hægt að segja að sú aðgerð komi á einhvern hátt til móts við hina tekulægstu.

Hér hefur hæstv. fjármálaráðherra sagt að það hafi engin rök komið sem geti haft áhrif á þá heldur furðulegu rökflækju sem hæstv. ráðherra hefur haft uppi, bæði í málflutningi sínum og í greinargerð með frumvarpinu. Ég hef hins vegar bent á að það hljóti að vera rök í málinu þegar ASÍ kemur fram með könnun sem ekki hefur verið vefengd og hvað sýnir hún? Jú, hún sýnir það að þrjár lægstu tekjutíundirnar nýta frá 16– 21% af ráðstöfunartekjum sínum til þess að kaupa mat, en hæstu þrjár tekjutíundirnar nýta frá 13 og niður í 10%. Það hrópar því á mann að munurinn á hæstu tekjutíundinni og þeirri lægstu er tvöfaldur, þ.e. þeir sem hafa hæst laun nýta 10% af ráðstöfunartekjum sínum til kaupa á þessu meðan hinir tekjulægstu borga meira en fimmtung. Þá segi ég: Hér verða menn að staldra við. Það verður að vera algjörlega ljóst ef það á að breyta þessu á þennan hátt að grípa verði til aðgerða sem jafna það. Að því leytinu til tek ég hjartanlega undir með forsendum hv. þm. Frosta Sigurjónssonar sem sagði fyrr í umræðunni að það væri forsenda hans fyrir stuðningi að allir stæðu jafn vel eftir. Það eru líka mínar forsendur og það er ekki svo samkvæmt frumvarpinu.

Það er algjörlega ljóst að hæstv. fjármálaráðherra þekkir ekki alla heima eða kima hinnar íslensku þjóðar. Hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki vita hvernig fólk lifir á Íslandi. Hvernig eiga þeir sem hér voru nefndir sérstaklega til sögunnar í gær, þeir sem lifa við svokölluð fátæktarmörk eða undir þeim, fólkið sem er með einhvers staðar á bilinu 175–200 þús. kr. á mánuði, 22 þúsund, 8,3% þjóðarinnar samkvæmt skýrslu sem gefin var út í fyrra, hvernig á þetta fólk að nýta sér afnám vörugjaldanna? Jú, hæstv. fjármálaráðherra kemur hingað og segir: Þetta fólk þarf líka að endurnýja ísskápa, kaupa sér flatskjá o.s.frv. En hvernig heldur hæstv. fjármálaráðherra að það endurnýi þegar þvottavélin brestur? Á nákvæmlega hátt og sum okkar gerðum sem vorum einhvern tíma blönk og ung, við fáum notuð tæki gefins hjá ættingjum okkar eða kaupum notað á lágu verði. Það vill svo til að það eru heilar síður á Facebook og víðar sem beinlínis þjóna þeim tilgangi. Þetta er veruleikinn í dag.

Þann veruleika þekkir ekki hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason og ekki hæstv. fjármálaráðherra. Þetta skiptir mestu máli í mínum huga. Það er ekki hægt að jafna til afnámi vörugjalda sem einhvers konar mótvægisaðgerðar í þessu máli. Veruleikinn er allt öðruvísi.

Svo talar hæstv. fjármálaráðherra um að það eigi að einfalda kerfið. En hann er enn með tvö virðisaukaskattsþrep og nú hefur hv. þm. Helgi Hjörvar bent á það að hans eigin menntamálaráðherra, lautinant og krónprins, hefur sagt það að hann sé til umræðu um að taka upp þriðja virðisaukaskattsstigið. Þetta sýnir ringulreiðina sem er á stjórnarliðinu í þessu máli.