144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það þarf enga kattasmölun í þessu máli eins og þurfti að jafnaði í fyrri ríkisstjórn. Þetta mál var afgreitt úr ríkisstjórn, það var afgreitt úr stjórnarflokkunum og er komið hingað inn vegna þess að það hlaut blessun í báðum þingflokkum.

Gera menn fyrirvara varðandi endanlega útfærslu? Mér heyrist það. Hver er sá fyrirvari? Hann er um það að þeim markmiðum sem að er stefnt verði tryggilega náð. Menn áskilja sér rétt til þess að fara vel yfir mótvægisaðgerðirnar og áhrif þeirra. Ég hef engar athugasemdir við það. En grundvallaratriðin standa; við drögum úr bili milli efra og neðra þreps, við afnemum vörugjöld og við förum í barnabætur sem sérstaka mótvægisaðgerð fyrir barnmargar fjölskyldur.

Þetta skilar árangri, þeim árangri að kaupmáttur vex, verðlag lækkar og ráðstöfunartekjur duga betur til þess að ná endum saman um hver mánaðamót. Það þarf sannarlega ekki að fara í smölun á borð við þá sem ég veit að hv. þingmaður man vel að var hér reglulegur viðburður á síðasta kjörtímabili og reyndar svo mjög að það dugði ekki til að smala köttunum úr stjórnarflokkunum heldur þurfti að leita út fyrir raðir þeirra til að halda lífi í stjórnarsamstarfinu á þeim tíma. Það er ekkert slíkt uppi á borðum núna.