144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrðist hæstv. fjármálaráðherra lýsa algjöru frati á fyrirvara þingflokks Framsóknarflokksins og segja að hann lyti bara að útfærsluatriðum varðandi afmarkaða þætti málsins sem er allt annað en það sem þingmenn Framsóknarflokksins hafa sagt hér í umræðu og í opinberum yfirlýsingum. (Gripið fram í.)

Það þarf auðvitað að fá að heyra það frá þingmönnum Framsóknarflokksins hvort fyrirvarinn lúti ekki að afstöðu til þess hvort í lagi sé að hækka virðisaukaskatt á matvæli. Og hæstv. ráðherra hefur hvergi léð máls á því að bæta þurfi betur úr mótvægisaðgerðunum sem hann gerir frekar lítið úr. Ég mun fara betur yfir það í ræðu minni á eftir þar sem ég mun fara yfir aðra þætti þessa máls.