144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi. Samkvæmt þessari ræðu hækkaði matarkostnaður hjá þeim sem hv. þingmaður vill verja sérstaklega um 1 þús. kr. vegna þessara breytinga. Og spurt er: Hvað verður með hinar 160 þús. kr.? Já, það er mergurinn málsins, það er kominn tími til að hv. þingmaður átti sig á því að sá einstaklingur sem er í þeirri stöðu ver hinum 160 þús. kr. í neyslu, í ýmsan kostnað, og mergurinn málsins er að sá kostnaður mun lækka. Ef rafgeymir í bílnum bilar þegar frost herjar á okkur eftir nokkrar vikur kostar hann 15 þús. kr. Hann mun þá lækka um 2 þús. kr. eða svo. Fátækt fólk á margt hvert bíla til að komast á milli staða, ekki satt?

Vaskur getur bilað, krani getur farið í eldhúsinu. Það er allt með 15% vörugjöld.

Hv. þingmaður verður bara að fara að gera sér grein fyrir því hvernig vísitala neysluverðs er samsett. Hún er ekki þannig samsett að hún sé 100% matur. Það er margt annað í vísitölunni og þegar allt það sem er í vísitölunni er tekið með í reikninginn mun hv. þingmaður átta sig á því að þeir sem eru með lægri tekjurnar verja hærra hlutfalli ráðstöfunartekna sinna í neyslu en þeir sem eru með hærri tekjur. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að sá sem hefur 700–800 þús. kr. í tekjur hefur meira svigrúm og það svigrúm nýtist oft og tíðum til að leggja til hliðar. Þess vegna koma breytingar á neyslusköttum sem eru til lækkunar slíkum síður til góða en þeim sem eru með lægri tekjur. Þetta heitir skattalækkun og það er voðalega erfitt fyrir þá sem hafa ekki gert sér í hugarlund að hægt væri að hrinda slíku í framkvæmd að skilja að það kemur öllum til góða. Það kemur lágtekjufólki líka til góða (Forseti hringir.) að afnema vörugjöld.