144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við sem viljum verja hag láglaunafólks vitum alveg hvað skattahækkanir og skattalækkanir þýða. Það hefur sýnt sig mjög vel frá því að þessi ríkisstjórn kom hér að völdum hverjar áherslur hennar eru í þeim málum.

Á síðasta kjörtímabili var farið út í þrepaskipt skattkerfi sem gerði það að verkum að skattbyrðinni var létt á millitekjufólk og láglaunafólk frá því sem var áður þar sem skattbyrðin jókst stöðugt á lágtekjufólk en minnkaði á hátekjufólk. Mér finnst mjög undarlegt að hæstv. ráðherra gefi því langt nef að öll verkalýðshreyfingin varar við þessum aðgerðum ofan í komandi kjarasamninga. Það er ekki nein bábilja að verið sé að vara við þessu.

Þegar barnabætur eiga að hækka eitthvað til mótvægis er það líka mjög umhugusunarvert að þær skerðast strax við 200 þús. kr. (Forseti hringir.) Ég held að hæstv. fjármálaráðherra ætti að kynna sér betur stöðu láglaunafólks í þessu landi.