144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er með ólíkindum að heyra hæstv. fjármálaráðherra fárast hér yfir því að á síðasta kjörtímabili hafi þurft að grípa til níðangurslegra, harðra og erfiðra aðgerða til þess að fylla upp í 230 milljarða fjárlagagat. Það er gott að vera eins og hann og láta sig líða á vængjum óminnishegrans og vilja helst ekki muna eftir fortíðinni. Hann vill greinilega ekki muna að það voru ákvarðanir sem rannsóknarnefnd Alþingis sagði að hefðu verið teknar fyrir mitt ár 2006 sem leiddu til þess að jörðin bókstaflega sprakk undir fótum þjóðarinnar. Sá fenrisúlfur sem braut þar fjötrana af og leysti þau öfl úr læðingi var Sjálfstæðisflokkurinn. Þannig að hann ætti aðeins að hugsa hvar upphafið er og hugsa — (Gripið fram í.)Ég segi bara: Maður líttu þér nær. Þetta er staðreyndin.

Herra forseti. Svo segir hæstv. fjármálaráðherra að það séu engir sem telji að ekki sé nægilega hugað að tekjulægstu hópunum. Hvernig í ósköpunum getur hann sagt það þegar hann stendur hér með eina meginstoð fjárlaganna og tekjuöflunaraðgerða ríkisins í höndunum og annað skipti í 50 ár gerist það að annar stjórnarflokkurinn gerir fyrirvara við málið, með öðrum orðum fylgir hann því ekki skilyrðislaust. Þegar það gerðist 1992 sagði starfandi formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Björn Bjarnason, að þetta jafngilti stjórnarslitum. Þannig er málið. Það getur vel verið að hæstv. fjármálaráðherra telji ekki að hann þurfi að smala neinum köttum, kannski af því þetta er kettlingahjörð og hann fer létt með að sópa þeim frá eins og mér sýnist á málflutningi ýmissa stjórnarþingmanna hérna í dag.

Þetta er einfaldlega staðreyndin. Hv. fjármálaráðherra viðurkenndi það þó í fyrsta skipti í ræðu sinni áðan að tekjulægstu hóparnir eyða langhæstu hlutfalli af ráðstöfunartekjum sínum (Forseti hringir.) í mat. Þess vegna er ekki hægt að draga aðra ályktun, herra forseti, en þá að þeir hljóta að koma verst út á meðan mótvægisaðgerðirnar eru ekki skýrðar. (Forseti hringir.)