144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hvaða tilefni er til þess að bera saman þær skattkerfisbreytingar sem nú er verið að kynna til sögunnar við það sem áður hefur verið gert? Er ég að gera það að eigin frumkvæði, án tilefnis? Nei. Tilefnið er það að stjórnarandstæðingar hafa haldið því fram í þessari umræðu að hér sé á ferðinni mesta skattahækkun á nauðsynjavörur í Íslandssögunni. Það er tilefnið. Þá bendi ég á einfaldlega á þá staðreynd að á árinu 2010 voru neysluskattar hækkaðir um u.þ.b. 25 milljarða. Í þessu máli lækka neysluskattar, þegar allt er tekið saman, um 3 milljarða. Þetta er samhengi hlutanna. Það var hv. þm. Helgi Hjörvar sem hóf þessa umræðu. Það er ágætt að ég fái að taka þátt í henni. Ég er ekki að tilefnislausu að rifja það upp hvernig áherslur fyrri stjórnar voru í skattamálum, ég vil bara halda því til haga sem rétt er í þessu efni.

Varðandi ósannindi og rangfærslur hefur nú farið svo mikið fyrir því í þessari umræðu að ég kemst ekki í hálfkvisti við þá sem lengst hafa gengið, jafnvel þótt því sé haldið upp á mig að hafa ekki farið að öllu leyti með rétt mál hér áðan. Hafi ég sagt að vinstri flokkarnir væru alltaf á móti skattalækkun skal ég halda mig við það sem ég var raunverulega að vísa til sem er að vinstri flokkarnir hafa verið á móti öllum skattalækkunum þessarar ríkisstjórnar. Það er uppistaðan. Nú skal ég óska eftir því að menn rifji það upp hvaða skattalækkanir það eru sem menn eru sérstaklega ánægðir með. Ekki er það tekjuskatturinn. Ekki er það auðlegðarskatturinn. Ekki er það veiðigjaldið. Ekki er það neitt af því sem mestu skiptir fyrir heimili og atvinnulíf. Ekkert af því. Annað er einhver, fyrirgefið orðbragðið, tittlingaskítur. Þetta eru einhver formlegheit (Forseti hringir.) sem dregin eru upp á yfirborðið til þess að geta verið í einhverjum orðhengilshætti.