144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hin sérkennilega ræða hæstv. fjármálaráðherra áðan kallar óhjákvæmilega á að ég fari yfir þær missagnir sem úði og grúði af í máli hans. Það er engin hræsni í því fólgin. Fyrst varðandi síðustu orð hæstv. fjármálaráðherra, að gagnrýna ýmsa þætti þessara tillagna er lúta að álögum á lágtekjufólk sérstaklega í gegnum hækkun matarskatts en lýsa ánægju með aðra þætti eins og afnám vörugjalda — vegna þess að það hefur verið sýnt fram á það með talnadæmum að ef hæstv. fjármálaráðherra hefði hugrekki til að ganga áfram í átt til einföldunar í skattkerfinu, fækka undanþágum, væri þar nægt svigrúm og nægar matarholur til þess að standa undir útgjöldum við lækkun vörugjalda.

Söguleg upprifjun: Það er alveg rétt að fjármálaráðherra Alþýðuflokksins lagði á virðisaukaskatt í einu þrepi, en það var Alþýðuflokkurinn og aðrir flokkar sem stóðu að stofnun Samfylkingarinnar sem samþykktu lækkun matarskatts í árslok 1994 vegna þess að um það hafði náðst samkomulag við verkalýðshreyfinguna. Um það var víðtæk samstaða meðal allra flokka sem síðan urðu að Samfylkingunni. Allir þessir flokkar greiddu líka atkvæði með lækkun þessa sama skatts niður í 7% í ársbyrjun 2007. Það stendur því ekki steinn yfir steini í söguskýringu hæstv. fjármálaráðherra að þessu leyti.

Það stendur ekki heldur steinn yfir steini í skýringum hans hvað varðar afstöðu okkar í Samfylkingunni til skattamála hér á síðasta ári. Það er svolítið sérkennilegt að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki fyrir því einu sinni að leggja á minnið hver afstaða stjórnarandstöðuflokka er í skattamálum í hans eigin ráðherratíð í svo stuttri fortíð.

Við studdum lækkun tryggingagjalds á síðasta ári, hefðum viljað sjá hana meiri. Við studdum lækkun tekjuskatts um 5 milljarða, lögðum fram breytingartillögu um útfærslu þess skatts þannig að allra ríkasta fólkið nyti þess ekki heldur mundi þungi ávinningsins lenda hjá fólki með á bilinu 250–600 þús. kr. Hæstv. fjármálaráðherra og hans lið hafnaði þeirri breytingartillögu en við náðum samt að beygja þá undir lokin, með tilstyrk verkalýðshreyfingarinnar, með breytingum sem voru gerðar 21. desember. Hæstv. fjármálaráðherra ætti nú að muna þessa hörmungarsögu skattbreytinga sinna þegar hann var hrakinn til baka með jólagjafirnar sínar til allra ríkasta fólksins í landinu, með tilstyrk verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarandstöðunnar.

Þetta um afstöðu Samfylkingarinnar til skattbreytinga á síðasta ári. Við höfum stutt skattalækkanir þessarar ríkisstjórnar þegar þær hafa verið málefnalegar.

Í þriðja lagi: Ekki er hægt að flytja hér svona ræður sem bera vitni lýðskrums og einskis annars um að vinstri menn séu alltaf á móti skattalækkunum og síðan hækki þeir skatta alveg án tillits til efnahagslegra aðstæðna. Það voru ástæður fyrir skattahækkunum á síðasta kjörtímabili. Það liggur líka fyrir að sjö af tíu tekjubilum komu betur út kaupmáttarlega séð vegna aðgerða síðustu ríkisstjórnar en ekki. Það voru bara þrjú hæstu tekjutíundarbilin sem komu verr út vegna þess að kaupmáttarrýrnun var óhjákvæmileg á síðasta kjörtímabili. Það ætti hæstv. fjármálaráðherra að viðurkenna og sýna manndóm í sér til þess. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir í greinargerð.

Ég get líka sagt að við fórum aldrei, í öllum niðurskurðinum og aðhaldsaðgerðunum, jafn langt og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins lagði til í niðurskurðaraðgerðum í velferðarkerfi á fyrstu vikunni eftir hrun. Þannig að við getum horft til baka með þessa heildarmynd þokkalega sátt við okkar hlut.

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að á þessu ári munu tekjutengd framlög til íslenskra heimila nema 17 milljörðum úr ríkissjóði. Í tíð síðustu ríkisstjórnar fóru þau aldrei undir 25 milljarða á sambærilegu verðlagi og eitt árið yfir 30.

Með öðrum orðum: Tilfærslur þessarar ríkisstjórnar eru frá tekjutilfærslum sem nýtast best heimilum sem lítið hafa á milli handanna og yfir til auðugustu heimilanna eins og sést best á skuldaniðurfærsluævintýrinu mikla og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um að neita að undanskilja ríkustu Íslendingana frá því.

Ákvörðun miðstjórnar Alþýðusambandsins í dag segir svo allt sem segja þarf um aðför ríkisstjórnarinnar að launafólki. Það getur vel verið að hæstv. fjármálaráðherra þrasi við okkur (Forseti hringir.) um það vegna þess að hann þykist hafa svo mikla reynslu af almennu launafólki, að í þessu felist ekki aðför að launafólki, en launafólkið sjálft telur hér um aðför í sinn garð að ræða.