144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér engin breyting áformuð varðandi það sem spurt er um og snýr að Framkvæmdasjóði aldraðra. Það er hins vegar rétt ábending hjá hv. þingmanni að við stöndum frammi fyrir því að þurfa að fara í heilmikla uppbyggingu á því sviði vegna fjölgunar í hópi aldraðra og aukinnar umönnunarþarfar á næstu árum og áratugum. Það er visst áhyggjuefni.

Ég get sagt almennt um það mál að ég mundi vilja forðast í lengstu lög að leysa þann vanda með lántöku og samningum við sveitarfélögin eins og gert var á síðast kjörtímabili, þó að það hafi við þær aðstæður sem þá voru verið skiljanlegt að vissu marki að leysa úr jafn brýnni þörf og menn stóðu frammi fyrir á þeim tíma, en það getur ekki verið langtímalausn. Af þessum sökum er orðið mjög tímabært að við ræðum fjármögnun þeirrar fjárfestingar sem við stöndum frammi fyrir og auðvitað verða þær hugmyndir að haldast vel í hendur við önnur úrræði sem við höfum verið með til skoðunar en of lítið hefur orðið úr og snúa að því að létta umönnunarþyngdinni, skoða leiðir sem geta verið kostnaðarminni og jafnvel mætt þörfum þeirra sem þurfa á umönnun að halda betur, t.d. með eflingu heimahjúkrunar. Ég vænti þess að þeirri umræðu verði haldið á lofti og málinu fylgt eftir af heilbrigðisráðherra. Ég mun svo koma inn á hitt atriðið sem spurt er út í í síðara andsvari.