144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að fara hér allnokkrum orðum um þetta frumvarp um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015, því hér er áfram skotið stoðum undir fjárlagafrumvarpið. Heildarmynd þess fékk nú í dag frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands þá einkunn að það væri aðför að launafólki. Ég tel óhjákvæmilegt til að varpa ljósi á þessa umræðu og leiða inn ræðu mína að vitna í ályktun fundar miðstjórnar Alþýðusambandsins sem lauk á fjórða tímanum í dag sem felur í sér að miðstjórnin telur engan grundvöll fyrir frekara samstarfi við ríkisstjórnina verði fjárlagafrumvarpið að veruleika. Þar segir, með leyfi forseta:

„Miðstjórn ASÍ lýsir yfir miklum vonbrigðum með að ríkisstjórnin velji með fjárlagafrumvarpi sínu fyrir árið 2015 að ráðast enn og aftur gegn hagsmunum launafólks í stað þess að hefja uppbyggingu velferðarkerfisins. Almennt launafólk hefur á síðustu árum tekið á sig miklar byrðar með samdrætti í tekjum, auknum útgjöldum og skuldsetningu sem leitt hafa til minni kaupmáttar. Þetta á ekki síst við um lágtekjuhópa og lífeyrisþega. Á sama tíma hefur verið skorið verulega niður í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu sem leitt hefur til meiri greiðsluþátttöku, minni þjónustu og meira óöryggis.“

Það er einnig rakið að skattar á eignafólk og hátekjumenn hafa verið lækkaðir svo um munar og skattar á fyrirtæki sem skila methagnaði verið lækkaðir umtalsvert þannig að samtals hafi ríkisstjórnin skert tekjur ríkissjóðs um tugi milljarða og því engin nauðsyn á að mæta minni tekjum ríkissjóðs með aðhaldsaðgerðum og skerðingu gagnvart almenningi.

Miðstjórnin brýnir félagsmenn sína að búa sig undir harkalegri átök á vetri komanda í ljósi þessa en rekur nokkra þætti sem tengjast beint þessu frumvarpi. Ég ætla ekki að gera að umræðuefni hækkunina á matvælum, en Alþýðusambandið sér hana býsna ólíkum augum en fjármálaráðherra. Ég ætla að fara yfir þá þætti í ályktun ASÍ um frumvarpið sem ég ætla að gera að umtalsefni.

Í fyrsta lagi atvinnuleysistryggingar. Gert er ráð fyrir að stytta bótatímabil atvinnuleysis úr 36 mánuðum í 30. Það er ekki gert á nokkurn hátt þannig að virtur sé einhvers konar aðlögunartími. Þessi ríkisstjórn hefur haft um það mörg orð að ekki sé hægt að hækka virðisaukaskatt nema með aðlögunartíma, hún treystir sér ekki til að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu upp í 14% með árs aðlögunartíma, hún ætlar samt að hækka virðisaukaskatt upp í 12% núna með þriggja mánaða aðlögunartíma, en ferðaþjónusta í afþreyingarskyni fær aðlögunartíma fram í maí.

Atvinnulaust fólk fær engan aðlögunartíma. Þessu er ekki hagað þannig að t.d. verði bótatímabilið stytt um mánuð á ári eða mánuð á hverjum sex mánuðum þannig að þeir sem hafa áunnið sér fullan rétt núna njóti hans og síðan fari hann minnkandi hægt og rólega á næstu missirum. Nei, þeir sem eru búnir með 30 mánuði um áramót lenda í því að allt er búið. Enginn aðlögunartími. Ekkert tillit gagnvart atvinnulausu fólki. Á sama tíma er dregið stórlega úr öllum tækifærum til að veita því þjónustu. Verið er að loka útibúum Vinnumálastofnunar um allt land. Hálft stöðugildi er á Húsavík þar sem mikil þörf er vegna þess að útgerðarfélagið Vísir hljóp burt með 66 störf þaðan fyrir nokkrum mánuðum. Það ætti að vera þörf fyrir alvöruráðgjöf fyrir fólk á Húsavík. Nei, hvað er gert þar? Lokað. Það er verið að loka þjónustustöðvum Vinnumálastofnunar hér og þar um landið. Það er dregið úr tækifærum fyrir fólk til þess að komast í starfsþjálfun og efla hæfni sína til þess að fá störf.

Skilaboðin gagnvart atvinnulausu fólki eru gríðarlega harðdræg og kaldranaleg. Reynt er að halda því fram að þetta sé gert til samræmis við nágrannalöndin. Það er rangt. Hér er vitnað í Danmörku og þar er atvinnuleysisbótatímabilið vissulega tvö og hálft ár, en þá tekur við atvinnubótaréttartímabil sem er virknitengt, rétt eins og okkar atvinnuleysisbótakerfi er. Tíminn er samtals fjögur og hálft ár. Þeir sem ekki trúa því geta flett upp á vefsíðu danskra jafnaðarmanna, þeir auglýsa þetta sérstaklega sem árangur af stjórnartíð þeirra undanfarin ár. Þannig að ríkisstjórnin getur ekki bent til Danmerkur til fyrirmyndar fyrir sveltistefnu sína gagnvart atvinnulausu fólki.

Starfsendurhæfingin bætist síðan þarna við. Það er brotið gegn samningum við aðila vinnumarkaðarins um framlög til starfsendurhæfingar og þar er vegið að hagsmunum fólks sem veikist eða slasast og þarf á starfsendurhæfingu að halda og því fólki sem vegna langtímaatvinnuleysis gæti sótt til starfsendurhæfingarsjóðs.

Í heilbrigðismálunum er síðan lagðar auknar byrðar á almenning. Það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að sjúkratryggingar eigi að halda sér innan ramma. Komi að því að þær fari yfir ramma verði bara aukið á greiðsluþátttöku. Það er opinn tékki á greiðsluþátttöku almennings til að tryggja að sjúkratryggingar fari ekki fram úr.

Númer tvö er að búin til alveg ný greiðsluþátttaka í S-merktum lyfjum sem veitt eru utan heilbrigðisstofnana. Og til að bæta gráu ofan á svart er síðan á málaskrá heilbrigðisráðherra talað um að það verði komið á heildstæðu kerfi greiðsluþátttöku þar sem menn greiði fyrir þjónustu hvort sem hún er veitt innan eða utan heilbrigðisstofnana.

Á öllum vígstöðvum sækir ríkisstjórnin fram gagnvart fólki í heilbrigðismálum, eykur álögur á venjulegt fólk, skapar möguleika á því að láta fólk borga fyrir þjónustu sem það fær á heilbrigðisstofnunum og opnar fyrir það heilt yfir að greiðsluþátttaka verði aukin af því það er eina prinsippið sem er að finna í þessu fjárlagauppleggi; það verði engar aukafjárveitingar til sjúkratrygginga. Þannig að allur framúrakstur á lyfjum sem hefur verið regla frekar en undantekning síðustu tíu ár verður á kostnað almennings í landinu. Það er sagt alveg skýrt.

Alþýðusambandið rekur líka að í húsnæðismálum sé ekki gert ráð fyrir neinum auknum framlögum. Síðan nefnir sambandið einnig menntamál enda sé Vinnustaðanámssjóður þurrkaður út og þrátt fyrir hávær og falleg orð um verk- og tæknimenntun sé dregið úr framlögum til verkmenntaskóla.

Síðan er lokað fyrir möguleika venjulegs fólks á að komast inn í framhaldsskólana sem við opnuðum í okkar stjórnartíð. Það er því dregið úr möguleikum fólks til að bæta við sig þekkingu og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða síðan frekar ýmsa aðra þætti. Hér er nefnt að vaxtabótakerfið verði óbreytt milli ára. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur holað vaxtabótakerfið að innan. Það er það sem eftir stendur þegar við horfum á þróunina síðustu ár. Gert er ráð fyrir því núna að útgjöld til vaxtabóta sem eru auðvitað tekjutengdar verði 7,7 milljarðar, fóru hæst í tíð síðustu ríkisstjórnar í 22 milljarða og voru vel yfir 15 flest ár.

Með öðrum orðum er dregið úr tekjutengdum greiðslum vegna húsnæðiskaupa um sem nemur næstum því 14 milljörðum frá toppnum. Á hinn kantinn er kynnt stórkostleg aðgerð, leiðréttingin mikla, og 20 milljarðar afhentir, ótekjutengt, stóreignafólki og lágtekjufólki jafnt. Þetta heitir aðför að lágtekjufólki og meðaltekjufólki. Þetta heitir skipuleg tilfærsla opinberra fjármuna frá þeim sem þurfa til þeirra sem þurfa síður. Þetta er öfugþróun, „regressíf“ aðgerð eins og hún heitir á fræðimáli þar sem þeir best stæðu fá hlutfallslega mest.

Ég ætla að fara með tölurnar aftur. Vaxtabætur á þessu ári eiga að vera 7,7 milljarðar, voru þegar hæst lét í tíð síðustu ríkisstjórnar 22 í tekjutengdar vaxtabætur. Þetta er 14 milljarða kr. niðurskurður á vaxtabótum. Á hinn kantinn slá menn sér á brjóst og segjast vera að mæta þörf heimila í vanda með 20 milljörðum, peningum sem eiga að fara jafnt til fólks, óháð tekjum, þar með til ríkustu 5% sem þessi ríkisstjórn varði á hæl og hnakka við afgreiðslu leiðréttingarfrumvarpsins í vor.

Tvennt verður ljóst þegar horft er á þetta: hversu öfugsnúin leiðréttingin er annars vegar og hversu lítil innstæða er fyrir öllu gortinu um umfang hennar hins vegar.

Í annan stað er opnað á það að úr Framkvæmdasjóði aldraðra verði veitt fé til að reka hjúkrunarrými. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í andsvari áðan að hann væri ekki hrifinn af leiguleiðinni sem hefur tryggt uppbyggingu hjúkrunarheimila vítt og breitt um land, m.a. nokkurra í kjördæmi okkar hæstv. fjármálaráðherra í Mosfellsbæ, Garðabæ, einnig á Akureyri. Nú er í gangi verkefni á Egilsstöðum og lagt hefur verið af stað með verkefni á Ísafirði. Verkefni í Reykjanesbæ er í gangi og ég er örugglega að gleyma einhverjum góðum verkefnum.

Ef menn ætla hins vegar ekki að fara leiguleiðina verða þeir að safna í sjóð og byggja upp af ríkisfé. Það gerir hæstv. fjármálaráðherra ekki. Við fengum engin svör við því áðan hversu mikið á að ganga á Framkvæmdasjóð aldraðra. Hann er á ári vel yfir milljarð, ég man ekki nákvæmlega töluna núna, en hann var að minnsta kosti þegar ég var félagsmálaráðherra vel yfir milljarð og það hefur örugglega hækkað enda hafa gjöld þar tekið verðlagsbreytingum. Ég spyr: Hversu mikið verður eftir af sjóðnum til uppbyggingar umfram afborganir af skuldbindingum sem þegar hefur verið gengist inn á vegna leiguleiða, í tilviki þessara tilteknu hjúkrunarheimila sem ég hef hér nefnt, og rekstrar þeirra rýma sem á að taka peninga út úr sjóðnum til að reka? Eða verður ekkert eftir? Á að þurrausa hann? Þá er náttúrlega holhljómurinn í ræðu hæstv. fjármálaráðherra um uppbyggingu hjúkrunarheimila áðan orðinn enn meiri.

Ég nenni satt að segja ekki að heyra enn einu sinni talsmann Sjálfstæðisflokksins setja það fram í alvöru þegar þessi umræða hefst að uppbygging heimahjúkrunar geti komið að fullu og öllu í staðinn fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma. Það verður aldrei. Það verður alltaf þörf fyrir hjúkrunarrými. Það þarf ekki annað en heimsækja hjúkrunarheimilið í Garðabæ eða Mosfellsbæ til að átta sig á því. Við munum aldrei geta tryggt öllum fullnægjandi umönnun inni á heimilum. Það er mjög mikilvægt að hið opinbera haldi áfram að tryggja umönnun þeirra sem þurfa á að halda.

Virðulegi forseti. Ég sakna líka að sjá sem fylgiskjal með þessu frumvarpi umfjöllun um lækkunina hjá umboðsmanni skuldara. Þar er vísað í greinargerð umboðsmanns skuldara og álit gjaldskyldra aðila, en maður sér ekki þær forsendur. Ég mundi gjarnan vilja sjá þær og teldi eðlilegt að það fylgdi frumvarpi af þessum toga.

Virðulegi forseti. Að síðustu, til að ljúka hér máli mínu. Heildarásýndin er eins og í fjárlagafrumvarpinu að öðru leyti þannig að sneitt er alls staðar að velferðarþjónustu, að brýnni þjónustu við venjulegt fólk. Sú opna gjaldtökuheimild sem lagt er upp með í heilbrigðismálunum er sérstakt áhyggjuefni. Hlutfall þess kostnaðar sem almenningur ber af öllum heilbrigðiskostnaði, ef ekki er bara tekin kostnaðarhlutdeild í því sem ríkið borgar hluta af heldur allur heilbrigðiskostnaður, hefur aukist mjög mikið á undanförnum árum. Það er ekki hægt að bæta þar við. Ég tel það mikla öfugþróun að setja fram stefnumörkun eins og þá sem sjá má í fjárlagafrumvarpinu um að sjúkratryggingar verði innan ramma því að breytt greiðsluþátttökukerfi tryggi bara að það gerist. Með því er þunginn í greiðslu vegna lyfja settur á veikari aðilann en ekki þann sterkari.

Það er líka mjög varhugavert við þær aðstæður sem við búum núna að veikja umgjörð atvinnuleysistrygginga og þjónustu við atvinnulaust fólk eins og hér er gert. Það er þvert á móti mikilvægt þegar byrja að sjást jákvæð teikn í efnahagslífinu að halda áfram að styðja fólk til sjálfsbjargar og hjálpa því til að nýta störf. Það má alls ekki kippa að sér höndunum þegar það gerist. Þvert á móti er þá svo mikilvægt að halda dampi. Það gerir ríkisstjórnin ekki. Hún þrengir alls staðar að tækifærum atvinnulauss fólks til þess að komast áfram, eins og dæmið sem ég tók af Húsavík áðan sýnir. Það er staðið fyrir dapurlegum niðurskurði í þjónustu við atvinnulaust fólk vítt og breitt um landið.