144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er áhyggjuefni að ríkisstjórnin gangi fram með þeim einhliða hætti sem hér er lýst og verulegt áhyggjuefni ef staða ákveðinna lífeyrissjóða á almennum markaði er rýrð um 3–4 milljarða kr. á ári hverju. Það getur haft áhrif á réttindi og einfaldlega lífeyrisgreiðslur þeirra sem eru félagsmenn í þeim sjóðum og full ástæða til að hafa áhyggjur af því.

Ég vildi líka spyrja hv. þingmann út í fyrirætlanir um starfsendurhæfingarsjóð. Ég veit að á tímabili var fallið frá, m.a. með samkomulagi við aðilana, framlögum ríkissjóðs í starfsendurhæfingarsjóð vegna þess að þar hafði safnast fyrir mikill sjóður. En nú skilst mér bæði á forseta Alþýðusambandsins og aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins að því sé ekki að heilsa lengur og að sú ákvörðun um að veita enga fjármuni til starfsendurhæfingar á næsta ári valdi því að draga þurfi úr þeirri starfsemi. Aðilar vinnumarkaðarins hafa keppst við að koma í veg fyrir að fólk lendi á örorku, reynt að vinna að því það haldi starfsgetu, haldi áfram vinnu, minnki kannski við sig í hlutastarf hafi það orðið fyrir einhvers konar áföllum, og fái stuðning og aðstoð. Það hefur verið nefndarstarf á vegum velferðarráðherra um að breyta örorkumatskerfinu og reyna að breyta því í hvetjandi kerfi fyrir fólk til vinnu en síðan í miðjum klíðum, meðan verið er að reyna að ná samningum um nýtt slíkt kerfi, er fótunum kippt undan að þessu leyti. Það virðist enginn vilji vera til þess af hálfu núverandi ríkisstjórnar að setja fjármuni til starfsendurhæfingar í landinu. Hefur þingmaðurinn ekki líka áhyggjur af þeim fyrirætlunum?