144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það eru margar spurningar og vangaveltur sem vakna við lestur þessa frumvarps og ekki síst í samhengi við hitt frumvarpið sem var rætt á undan þessu. Setningin „ríkið gefur og ríkið tekur“ kemur óneitanlega upp í hugann. Ef ríkið er að láta almenning í landinu hafa 2,7 milljarða í gegnum lækkun á vörugjöldum og lækkun á efra þrepi virðisaukaskatts — sem að vísu er sýnd veiði en ekki gefin því að í því reikningsdæmi er gert ráð fyrir að allar lækkanir skili sér að fullu út í verðlagið sem er mjög hæpin forsenda — ef við gerum ráð fyrir því að ríkið sé, með því að þetta skili sér allt út í verðlagið, að færa almenningi 2,7 milljarða í því frumvarpi þá er ríkið að ná því mestöllu til baka í þessu frumvarpi með gjöldum á sjúklinga, á kostnað umhverfisins með því að láta markaðar tekjur ekki renna í loftslagssjóð, með alls konar frestunum eins og á viðmiðunarákvæðum í vaxtabótum og með alls konar brellum varðandi tryggingagjald, sem mér finnst eiginlega vera það athyglisverðasta í þessu frumvarpi.

Á sama tíma og ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra talar af mikilli andagift um að einfalda skattkerfið er hann að flækja það með tryggingagjaldinu. Ég sé ekki betur en tryggingagjaldið sé einfaldlega orðið annar tekjuskattur á fyrirtæki. Þetta er í sívaxandi mæli farið að renna í ríkissjóð til alls konar verkefna, aðallega til fjármögnunar á almannatryggingakerfinu. Það er þróun sem byrjaði af miklum krafti í hruninu og dálítið mikið á síðasta ári, það voru nokkur tíðindi í þessu þá. Þróunin hefur verið þessi: Tryggingagjaldið hækkaði um 2,35 prósentustig árið 2009. Það var augljós ástæða. Það var atvinnuleysi í landinu á þeim mælikvarða að við höfðum ekki séð slíkt áður og atvinnulífið var reiðubúið að taka á sig þessar byrðar vegna þess að það er áratuga löng sátt, og lögbundin sátt, um að tryggingagjaldið renni að hluta til í Atvinnleysistryggingasjóð sem og í Fæðingarorlofssjóð og til ýmissa afmarkaðra verkefna fyrir atvinnulífið. Þess vegna heitir það tryggingagjald.

2,35 prósentustig, það er töluvert mikil hækkun, það er um 20–30 milljarðar sem fara í ríkissjóð. En það var ástæða, atvinnuleysið fór upp. Síðan hefur atvinnuleysið farið niður en atvinnulífið borgar enn þá þessa aukningu á tryggingagjaldinu. Með alls konar aðferðum, sem við sjáum ár eftir ár, er alltaf verið að taka stærri hluta af þessari prósentu beint í ríkissjóð. Það er til dæmis gert þannig að ekki er greitt í VIRK, það er aftur ákveðið núna að greiða ekki í starfsendurhæfingarsjóð úr tryggingagjaldinu. Það kunna að vera einhver rök fyrir því, mér virðist að það skorti samráð við vinnumarkaðinn um það en það kunna að vera rök. En lækkunin er ekki látin renna til atvinnulífsins, hún er látin renna í ríkissjóð.

Það á að stytta atvinnuleysisbótatímann í tvö og hálft ár án nokkurs aðdraganda, fyrirvara eða aðlögunartíma fyrir atvinnuleitendur. Þar er ríflega milljarður. Það svigrúm er ekki notað til að lækka tryggingagjaldið. Það er líklega hugsunin að það renni í ríkissjóð á sama tíma og Vinnumálastofnun skortir fé, m.a. í eftirlit með bótasvikum, það skortir algerlega fé í það, en þarna ætlar ríkisvaldið að ná sér í pening. Það á að hætta jöfnun og lækkun örorku almennu lífeyrissjóðanna og þar á að ná sér í pening, þetta svigrúm er ekki notað til að lækka tryggingagjaldið heldur til að ná í pening í ríkissjóð.

Í fyrra var stigið stórt skref í þessu þegar náð var í 7,5 milljarða með því að hækka almenna tryggingagjaldið. Það stendur enn þá núna. Þá var stóra skrefið tekið, náð í 7,5 milljarða í tryggingagjaldið, í ríkissjóð, í fullkominni ósátt við aðila vinnumarkaðarins. Á þessum tímum þegar við erum að tala um að einfalda skattkerfið og menn tala einlægir í pontu um það markmið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar er á sama tíma einfaldlega verið, með alls konar flækjum, að ná í þennan pening í tryggingagjaldið.

Þetta er mjög óskammfeilið til dæmis gagnvart sveitarfélögunum. Ef það á að láta nokkur hundruð manns hætta á atvinnuleysisbótum um áramót án fyrirvara mun það birtast að mjög stórum hluta til sem aukinn kostnaður á sveitarfélög vegna þess að þau þurfa þá að taka við því fólki í fjárhagsaðstoðarkerfin sín, það er einfaldlega stjórnarskrárbundið. Þá væri alla vega sáttarhönd til sveitarfélaganna, sem eru stórir greiðendur tryggingagjalds í landinu, að láta þessa lækkun á atvinnuleysisbótum, sem eru fjármagnaðar með tryggingagjaldinu, renna til lækkunar á gjaldinu. Það er ekki gert, það á bara að sækja þennan pening í ríkissjóð. Svo er peningur sóttur áfram í Framkvæmdasjóð aldraðra. Einhvern veginn þarf að fjármagna ríkið. Það er sóttur peningur þangað í staðinn fyrir að láta það fé renna, eins og það á að gera, til uppbyggingar hjúkrunarrýma. Þetta er stóra myndin.

Hér birtist hvernig verið er að flækja skattkerfið, hvernig verið er að ná í pening með alls konar flóknum og ógagnsæjum leiðum. Ég veit ekki einu sinni hvort ég get gert mig alveg skiljanlegan þegar ég reyni að lýsa því en stóra myndin er þessi: Þegar atvinnuleysið minnkar á tryggingagjaldið að lækka en það lækkar ekki heldur er mismunurinn tekinn inn í ríkissjóð. Þetta er ógagnsæ og í raun og veru óheiðarleg flækja með skattkerfið á sama tíma og menn eru í öðrum frumvörpum að lýsa því yfir að þeir séu að einfalda skattkerfið. Svona er það.

Svo er farið í S-merkt lyf. Það er dálítið erfitt að sjá hvað það þýðir í raun og veru. Mun þetta leiða til þess að stærri hluti S-merktra lyfja verði ávísaður á apótek en ekki látinn sjúklingum í té á heilbrigðisstofnunum? Við vitum ekki hver hugsunin í þessu er, hvaða útreikningar og greining liggur að baki því að 145 milljónir komi í ríkissjóð. Í öllu falli er ég sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, þetta er peningur sem á að koma úr vasa sjúklinga og miðað við það til hverra flest S-merkt lyf fara eru þetta ákaflega veikir sjúklingar sem á að taka pening af.

Mjög svo óheflað viðhorf til umhverfismála birtist enn á ný í gerðum ríkisstjórnarinnar með því að láta ekki markaðar tekjur upp á 150 milljónir renna í loftslagssjóð sem á að efla nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi á sviði græna hagkerfisins, á sviði græns iðnaðar. Það er hrein sorgarsaga að sjá hvernig tillögur þverpólitískrar nefndar um eflingu græna hagkerfisins hafa endað í meðförum ríkisstjórnarinnar.

Í forsætisráðuneytinu áttu að vera um 200 milljónir til að hafa yfirumsjón með eftirfylgni á 50 tillögum sem nefndin skilaði á síðasta kjörtímabili um að efla græna hagkerfið og það er núna frammi fyrir augunum á okkur að renna í húsminjar.

Hér er annað dæmi: Peningur sem á að renna í loftslagssjóð til nýsköpunar er tekinn og látinn fara í eitthvað annað, í ríkissjóð. Það er fullkomið áhugaleysi á grænum málum, á græna hagkerfinu og uppbyggingu græns iðnaðar sem ég held að sé eitthvert stærsta sóknarfæri og mest aðkallandi mál íslensks samtíma og samtíma veraldarinnar. Þetta er fullkomlega látið liggja á milli hluta í stefnumiðum ríkisstjórnarinnar og gerðum hennar.

Svo er dálítið athyglisvert að skoða þennan hringlandahátt með Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Það var hluti af fjárfestingaráætlun sem við í Bjartri framtíð börðumst fyrir og studdum í tíð síðustu ríkisstjórnar að setja mjög ríflega í uppbyggingu ferðamannastaða af ýmsum ástæðum. Það lá fyrir greining á því og augljósar röksemdir að byggja þyrfti upp innviði í ferðaþjónustu, byggja upp aðbúnað á ferðamannastöðum og þar fram eftir götunum. Það var lagt til að settur yrði ríflegur peningur í það og fjármagnað af arðgreiðslum í ríkissjóð úr bankakerfinu sem síðan skiluðu sér. Ríkisstjórnin, í allmiklum þjósti að mér fannst, ákvað að blása þessa fjárfestingaráætlun algerlega af á einu bretti og sóknaráætlun landshluta líka. Hvað gerist síðan? Fjárþörfin var augljós og nú þarf á fjáraukalögum fyrir árið 2014 að setja pening í uppbyggingu ferðamannastaða eftir að ríkisstjórnin hafði tekið þá út og ríkisstjórnin virðist ekki hafa lært af því að það þarf pening í þetta. Og nú er vísað í einhverja vinnu, sem við fáum engin svör um hvar stendur, um náttúrupassa eða gjaldtöku af ferðamönnum, þannig að þetta er látið dankast í staðinn fyrir að fylgja mjög myndarlegri stefnumörkun sem var búið að ákveða, þó að það hafi verið í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar ætti þessi ríkisstjórn alveg að geta tekið það upp. Hér stefnir í að aftur sé skorið niður til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og hvað, mun þá peningurinn síðan koma inn í fjárauka fyrir 2015, peningurinn sem þörf verður á til að byggja upp? Þetta er rassvasabókhald. Við verðum að gera það almennilega og í samræmi við viðurkennda og lögbundna ferla að setja pening í þetta.

Síðan er mjög athyglisvert að sjá að umboðsmaður skuldara fær minna fé. Það er lögbundið það ferli hvernig á að ákveða hvernig féð á að renna til umboðsmanns skuldara. Hann gefur skýrslu um fjárþörf sína og svo er það fjármálakerfið sem fjármagnar. En nú þarf minna. Nú þarf til dæmis greinilega ekki útibú á Akureyri og hagur heimilanna virðist samkvæmt umboðsmanni skuldara fara batnandi, ef maður á að túlka þetta þannig, ef umboðsmaður skuldara þarf minna fé. Er þá ekki um að gera að setja 80 milljarða í skuldavanda heimilanna á næstu fjórum árum? Í alvöru talað, er einhver heil brú í þessari stefnumörkun, í áherslu í meðferð á opinberum fjármunum? Umboðsmaður skuldara, sem er lögbundin stofnun sem á að vakta ástandið, skuldavanda heimilanna, en í forsendum þessa frumvarps segir að ástandið hafi batnað svo mjög að ekki sé ástæða til annars en að skera mjög duglega niður í framlögum til stofnunarinnar. Á sama tíma er ríkisstjórnin að fara að setja 20 milljarða á þessu ári, 20 milljarða á því næsta, 20 milljarða þarnæsta ár og 20 milljarða á árinu þar á eftir úr ríkissjóði til að mæta því sem ríkisstjórnin kallar skuldavanda heimilanna. Mér finnst þetta ótrúleg óráðsía, ótrúlega mótsagnakennt. Þetta er alls ekki dæmi um aga í meðferð á opinberum fjármunum.

Að síðustu eru það sóknargjöldin, framlög til þjóðkirkjunnar hækka og það er m.a. rökstutt með því að þetta þurfi að leiðrétta, þjóðkirkjan hafði tekið á sig svo mikinn skell í hruninu. Ég ætla að láta þetta vera lokaspurningu mína: Af hverju gilda ekki sömu röksemdir gagnvart atvinnulífinu, svo dæmi sé tekið? Af hverju gilda ekki sömu röksemdir gagnvart Landspítalanum, vegakerfinu, Neytendastofu, öllum þeim sem hafa tekið á sig byrðar í hruninu? Og í þessu samhengi einkum og sér í lagi atvinnulífið, vegna þess að atvinnulífið tók á sig 2,35 prósentustiga hækkun á tryggingagjaldi út af fjármögnun á atvinnuleysi og auknum atvinnuleysisbótum og það eru engin teikn á lofti um að atvinnulífið fái núna að njóta þess að tíðin er betri. Það er alvarlegt fyrir ríkisstjórn sem er, að ég held, umhugað um að gæta hagsmuna atvinnulífsins.