144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[19:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er svolítið óvenjuleg staða í sjálfu sér, að það skuli liggja þannig að málið sé opið til umfjöllunar. Vonandi verður það fært til betri vegar í efnahags- og viðskiptanefnd og ég hef til þess væntingar, ef marka má umræðu sem var hér seint í gærkvöldi, af hálfu formanns efnahags- og viðskiptanefndar.

En það sem maður hefur áhyggjur af er að þunginn bak við framlagningu fjárlagafrumvarps og tekjufrumvarpa er ekkert smotterí ef svo má að orði komast. Þetta er nánast að segja framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma. Það sem maður hefur áhyggjur af ekki síður er það að svo virðist sem þær breytingar sem verið er að gera hér, sem sumar hverjar eru býsna brattar, séu gerðar án þess að um sé að ræða nokkurt samráð við sveitarfélögin eða aðila vinnumarkaðarins. Þá er ég kannski sérstaklega að tala um styttingu atvinnuleysisbótatímabilsins og svo þá meðferð sem hér hefur verið rædd á tryggingagjaldinu, sem er auðvitað mjög mikið áhyggjuefni. Það kemur líka fram í yfirlýsingu Alþýðusambandsins í dag að Alþýðusambandið telur vandann vera orðinn mjög mikinn núna eftir að þetta útspil er komið ef svo má að orði komast, að það sé ekki gott andrúmsloft fyrir samninga.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann, kannski frekar í almennum orðum að því er varðar þetta prinsipp sem stundum er rætt með markaðar tekjur. Maður finnur fyrir þeirri togstreitu sem á sér stað að þarna er um að ræða loftslagssjóð og svo er það tryggingagjald og svo eru það fleiri slíkar. Við höfum verið að tala um útvarpsgjald og ofanflóðasjóður er eitt slíkt dæmi. Auðvitað skiptir máli að virða fjárstjórnarvald Alþingis á hverjum tíma, að það sé fyrir hendi og það sé alveg klárt, en um leið skiptir máli sá trúnaður sem er fyrir hendi á milli skattgreiðenda og hins opinbera þegar um er að ræða eyrnamerkta skatta sem ætlaðir eru í tiltekin verkefni.

Mig langar að biðja hv. þingmann að fara aðeins yfir afstöðu Bjartrar framtíðar til þessara þátta svona í meginatriðum.