144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[19:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Forseti. Áfram er haldið að krukka í kjör almennings í landinu með þessu frumvarpi og mig undrar ekki að aðilar vinnumarkaðarins hafi látið í sér heyra, a.m.k. samtök launþega. Þau hafa verið að funda um þessi mál sem bitna svo illilega á þeirra umbjóðendum. Það er heldur ekki undarlegt að Alþýðusambandið kalli fjárlagafrumvarpið aðför að launafólki því að það er auðvitað ekkert annað en mjög alvarleg aðför að launafólki sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu og því frumvarpi sem við ræðum hér.

Maður spyr sig líka: Hvað hugsa menn til framtíðar varðandi samstarf við aðila vinnumarkaðarins? Halda menn að þeir geti slengt þessari blautu tusku í andlitið á verkalýðshreyfingunni rétt áður en gengið verður til nýrra kjarasamninga og það hafi engin áhrif? Verkalýðshreyfingin hefur gefið út þessa dagana að hún búist við að það verði mjög harðar deilur við gerð kjarasamninga og kannski meiri deilur en menn hafi þekkt um langt skeið. Nú þurfi verkalýðshreyfingin virkilega að standa saman og þétta raðirnar, eins og sagt er, þegar ríkið gengur fram með þessum hætti í skerðingum á kjörum launafólks í landinu, ekki bara á einu sviði heldur er þetta eins konar tangarsókn úr öllum áttum.

Þetta dregur ekki úr undruninni því að maður hélt að þessir tveir flokkar hefðu einhver tengsl inn í verkalýðshreyfinguna. Ég kem úr verkalýðshreyfingunni og veit að þar eru menn í forsvari fyrir verkalýðsfélög sem hafa gefið upp skoðanir sínar í pólitík og styðja þessa flokka eða hafa stutt þá, en þeir hafa gagnrýnt harðlega hvernig gengið er fram í fjárlagafrumvarpinu gagnvart kjörum fólks almennt. Við erum búin að ræða matarskattinn og áhrif hans í bili en í þessu frumvarpi eru atvinnuleysistryggingar undir. Þessi mikla stytting á bótatímabili er vissulega fordæmalaus. Það má hugsa út í það hve langt síðan það er að menn lögðu mikið á sig að berjast fyrir þeim tryggingum sem felast í því að launþegar geta farið á atvinnuleysisbætur þegar fólk missir vinnuna. Það var samið um atvinnuleysisbótakerfið 1956 og það hefur aldrei gerst að ráðherrar hafi sett fram jafn mikla skerðingu á bótarétti án þess að hafa a.m.k. reynt að ræða við aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur. Kerfið var sett á fót með samningum milli þessara aðila og hefur dugað býsna vel.

Þessi ráðstöfun sýnir bara hve mikið samskiptaleysi er við aðila vinnumarkaðarins þó að menn ættu að vita hve brýnt það er að halda góðu sambandi. Það skiptir svo gífurlega miklu máli að menn nái góðri niðurstöðu við gerð kjarasamninga til lengri tíma og ríkisvaldið tryggi stöðugleika til að varðveita kaupmátt í landinu.

Þá get ég líka nefnt sveitarfélögin. Nú er ekki hægt að segja að í forsvari fyrir fjölda sveitarfélaga í landinu séu vinstri menn, því miður. Það eru allt of fáir vinstri menn í forsvari fyrir sveitarfélög, en það mjakast og gerði það á nokkrum stöðum fyrir síðustu kosningar. Menn gætu haldið að forusta ríkisstjórnarinnar væri í einhverju sambandi við sveitarfélögin, en nú er ákveðið einhliða að skera niður bótatímabilið úr þremur árum í tvö og hálft ár. Og hvar lendir þetta fólk? Það á bara að henda þeim sem hefðu átt lengri rétt núna um áramótin á guð og gaddinn, eins og sagt er, og hver tekur við? Það er skylda sveitarfélaganna að bera ábyrgð á fjárhagslegri framfærslu þess fólks, en sú framfærsla og sú upphæð er þó nokkuð mikið lægri en atvinnuleysisbætur eru í dag. Mörg sveitarfélög ráða illa við að taka við þessum verkefnum þar sem ríkisstjórnin ætlar ekki að koma með neitt á móti eins og var gert í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þá var komið með ýmsar vinnumarkaðsaðgerðir í samstarfi við sveitarfélögin til að vinna gegn atvinnuleysi og koma fólki í uppbyggileg verkefni og nám til að nýta kraftana meðan á atvinnuleysi stóð.

Það er mikið rétt að atvinnuleysi hefur minnkað og það er auðvitað mjög jákvætt. Ég held að það megi alveg hrósa fyrri ríkisstjórn, verkalýðshreyfingunni og Vinnumálastofnun og mörgum aðilum eflaust til viðbótar fyrir að það var mikil samtakamáttur á síðasta kjörtímabili til að vinna gegn langvarandi atvinnuleysi. Við þekkjum átakið Nám er vinnandi vegur og fjölda annarra verkefna sem var hleypt af stað, þau hjálpuðu fólki að fara og mennta sig meðan það var á bótum og gerðu að verkum að margt ungt fólk og yngra fólk sem hafði flosnað upp úr námi fór aftur á þá braut að mennta sig og hafði í framhaldinu meiri möguleika á að fá vinnu. En það er ekki svo gott að einhverjar slíkar mótvægisaðgerðir séu í gangi heldur á bara að klippa á þetta sisvona. Tryggingagjaldið hefur verið til umræðu og lækkunin á því mætir auðvitað ekki inngreiðslum atvinnulífsins í Atvinnuleysistryggingasjóð.

Yfirlýsing hæstv. félagsmálaráðherra sem kom fram í fréttum um daginn var mjög undarleg, um að það þyrfti að skera niður í atvinnuleysisbótakerfinu eða stytta tímabilið vegna þess að þetta hefði komið svo niður á bótum hjá elli- og örorkulífeyrisþegum í landinu. Það er ekki rétt því að atvinnutryggingagjaldið hefur runnið í Atvinnuleysistryggingasjóð og hefur fjármagnað atvinnuleysisbætur. Þetta hefur verið sjálfbært kerfi. Þetta hefur ekki verið tekið úr ríkissjóði. Niðurskurður í Atvinnuleysistryggingasjóði er ekki vegna hallareksturs í sjóðnum sjálfum heldur virðist eiga að nýta peningana í eitthvað annað eins og hefur komið fram í umræðunni. Svo ef hárin rísa ekki á einhverjum úti í þjóðfélaginu, aðilum vinnumarkaðarins og fleirum við þessa ákvörðun held ég að blóðið renni ekki í mönnum. En þetta heldur áfram því að ríkið fellir niður starfsendurhæfinguna, þetta umsamda og lögboðna framlag sem var samið um í starfsendurhæfingarsjóð. Það kom fram í ræðum áðan að það er orðin skylda að atvinnurekendur greiði 0,13% í starfsendurhæfingarsjóð. Þeir standa við sitt en ríkið stendur ekki við sitt. Menn verða að taka formlega upp samninga við þessa aðila ef þeir ætla að heykjast á því að uppfylla þá samninga sem gerðir hafa verið.

Hér hafa komið fram skerðingar á framlögum til jöfnunar örorkubyrða almennra lífeyrissjóða. Það veldur því að skerða þarf lífeyrisgreiðslur til félagsmanna Alþýðusambandsins. Ég segi að þá er félagsmönnum þeirra sjóða mismunað gagnvart þeim sjóðum sem njóta ríkisábyrgðar. Það er þannig. Svo þekkjum við það sem við höfum rætt hér, en það eru S-merktu lyfin. Kostnaður vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu eykst. Þannig er sérstaklega vegið að hagsmunum sjúklinga og allra þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.

Nei, við erum ekki á réttri leið og maður vill svo gjarnan vona að þingið taki þetta mál í sínar hendur. Manni heyrist að mörgum þingmanninum í stjórnarliðinu standi ekki á sama og sé kannski farinn að gera sér grein fyrir alvöru málsins. Þó að það sé alltaf gott þegar menn eru við stjórnvölinn að sýna samstöðu og standa með sjálfum sér og sinni ríkisstjórn verða menn líka að hafa sjálfstæðar skoðanir og gera sér grein fyrir því hvað þarna er á ferðinni, ræða við sitt bakland og koma heiðarlega fram í því. Það vill nú svo til að það eru alltaf kosningar á fjögurra ára fresti og ég held að það sé ekki gott að hafa þetta í farteskinu við kosningar. Það er ekki góður svipur á því hvernig menn ætla sér að fara með láglaunafólk í landinu, þá sem standa höllustum fæti og það er ekki á kostnað þeirra sem betur hafa það. Það á í raun að keyra fram gífurlega tekjutilfærslu á milli þjóðfélagshópa sem er held ég ein hin mesta sem verið hefur hér til fjölda ára.

Ég hef stundum skammað verkalýðshreyfinguna fyrir að vera ekki nægilega róttæk og standa ekki nægilega vel með sínu fólki. Ég held að það sé allt í lagi að brýna verkalýðshreyfinguna til verka, en nú þurfum við sem teljum okkur vilja standa með láglaunafólki í landinu og þeim sem verr eru settir og almenningi í landinu — því það veit enginn hvenær hann getur lent í erfiðri stöðu og þarf á velferðarkerfinu að halda, hvort sem það eru atvinnuleysisbætur eða eitthvað annað — að tryggja að þetta frumvarp fari ekki óbreytt í gegnum þingið.